140. löggjafarþing — 88. fundur,  25. apr. 2012.

framkvæmdarvald og stjórnsýsla í héraði.

738. mál
[18:41]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Við ræðum frumvarp til laga um framkvæmdarvald og stjórnsýslu ríkisins í héraði. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem mál af þessu tagi kemur til kasta þingsins, þ.e. þess efnis að fækka skuli embættum. Nú eru það sýslumenn sem verið er að ræða um.

Ég kannast við þá umræðu í gegnum tíðina og löngu áður en ég kom á þing að fækka þyrfti þessum embættum og ég man eftir mótmælum þeirra sem hafa unnið lengi í stjórnsýslunni og bent á að þetta séu elstu embættin í landinu og þess vegna eigi að fara varlega í að hrófla við þeim.

Þegar umræða af þessu tagi hefur farið fram og er komin á dagskrá berast okkur að sjálfsögðu athugasemdir frá fólki alls staðar að af landinu sem óttast að í hönd fari þjónustuskerðing. Það grundvallaratriði sem við eigum að hafa í huga þegar við skoðum þetta mál hvort með því sé verið að boða skerðingu á þeirri mikilvægu þjónustu sem íbúar landsins eiga að hafa öruggt og gott aðgengi að. Ég tel að við eigum í fyrsta lagi að horfa á þessar boðuðu breytingar með þeim gleraugum, ekki segja einfaldlega: Nei, takk! — vegna þess að hér sé verið að fækka embættismönnum eða vegna þess að augljóst sé að störf muni færast til og tapast á landsbyggðinni.

Hæstv. ráðherra hefur boðað að þjónustumiðstöðvar verði um allt land. Það kemur ekki fram hvar þær verði eða með hvaða hætti þær verði þannig að það er umræða sem mun auðvitað lita alla umfjöllun um þetta mál. Við þekkjum það einfaldlega að þegar mál af þessu tagi hafa komið hingað inn gegnum tíðina þá vilja allir fá að hafa áhrif á þau og hafa eðlilega miklar skoðanir á þeim.

Við sýslumannsembættin víða um land vinnur fjöldinn allur af fólki. Þar sem ég hef unnið hjá tveim slíkum embættum þá þekki ég það af eigin raun að hinir almennu starfsmenn þar eru víða konur sem hafa unnið lengi hjá viðkomandi embætti og hafa t.d. mikla reynslu af úrlausnarefnum sem varða þinglýsingar o.fl. Hjá þessum embættum er því mikill mannauður og það þarf að gæta að því að hann tapist ekki. Það er alltaf hættulegt þegar verið er að boða breytingar langt fram í tímann að það komi flótti í mannskapinn vegna þess að starfsmenn eru óöruggir um það starfsumhverfi og starfsöryggi sem þeir hafa búið við. Þrátt fyrir að það sé ágætt að þessi skipun, miðað við frumvarpið, eigi ekki að taka gildi fyrr en 1. janúar 2015 — því hefur verið lýst í ræðum áður en ég talaði að það væri kostur — má vissulega líta til þess að það er líka galli vegna þess að hættan er sú að menn séu ekki öruggir um það hvað muni gerast um áramótin 2014/2015 og fari því af stað og ef annað starf býðst séu þeir farnir.

Ég sé það á bls. 19 í greinargerðinni að leitast eigi við að raska högum starfsfólks sem minnst og fá fram afstöðu starfsmanna til þess hvar þeim hugnist að starfa, þ.e. hvort það sé hjá lögreglustjóra eða sýslumannsembættinu. Það er ágætt en hættan er bara sú að þetta ágæta fólk fái tilboð annars staðar frá eða sjái möguleikana á því að hafa það betra annars staðar í öruggara umhverfi og að það fari einfaldlega.

Þó að ráðherrann segi að þetta sé ekki gert í því skyni að ná fram gríðarlegri hagræðingu, það sé ekki grunntónninn í þessu, þá hafa auðvitað sameiningar sem þessar þann tilgang og hefur verið tilhneiging að halda því fram í umræðunni að gríðarleg hagræðing fylgi í kjölfarið. Það liggur hins vegar ekki fyrir eins og ráðherrann fór ágætlega yfir í andsvari við mig áðan. Ég tel að ef á að halda sama eða jafnvel betra þjónustustigi eftir þessar breytingar verði kerfið aldrei ódýrara en það er í dag. Ég get ekki séð að á nokkurn hátt sé hægt að rökstyðja að svo verði.

Jafnframt er ekki búið að lögfesta ný barnalög en miðað við þá löggjöf sem hæstv. ráðherra sjálfur hefur farið ítarlega yfir í þinginu mun koma til umtalsverður kostnaður vegna þeirrar sáttaleiðar sem gert er ráð fyrir að verði meginreglan við meðferð ágreiningsmála um forsjá varðandi málefni barna. Auðvitað kemur til kostnaðarauka sem er kannski ekki talað um hér en það er athyglisvert að lesa umsögnina frá fjármálaráðuneytinu eða fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins sem fylgir og er á bls. 31–32 í þessu frumvarp. Það er í rauninni voðalega lítið innihald í henni. Ráðuneytið segir, með leyfi forseta:

„Það kynni að hafa verið heppilegra í þessu tilliti að fyrir lægi hver ávinningur af breytingum væri og hvernig ráðstafa mætti þeim fjármunum í samhengi við fjárheimildir til málaflokksins á komandi árum.“

Þarna er eins og ráðuneytið líti svo á að það sé sjálfsagt mál að gríðarleg hagræðing náist við þessar breytingar og það sé hægt að fara að tala um hvernig eigi að ráðstafa þeim fjármunum sem koma til við þá hagræðingu. Ég leyfi mér að efast um að slík hagræðing náist. Ég heyri að ráðherrann er svipað þenkjandi og ég og bendir á að fjármálaráðuneytið sé ekki innanríkisráðuneyti enn sem komið er og þótt menn séu mikið að sameina ráðuneyti er þetta atriði sem er greinilega ekki litið á með sama hætti milli ráðuneytanna. Ég hvet hæstv. ráðherra til að ítreka það í seinni ræðu sinni að það komi til aukins kostnaðar verði sú sáttaleið sem lagt er til að verði niðurstaðan í þeim barnalögum sem eru til meðferðar í velferðarnefnd að veruleika.

Herra forseti. Það er endalaust hægt að tala um hvar eðlilegt er að sýslumenn séu og hvort eðlilegt sé að embættin séu átta eða ekki. Auðvitað gengur ekki upp að aðgengi að þessari mikilvægu þjónustu sé skert. Við höfum dæmi um umdæmi eins og Hornafjörð, sýslumanninn í Vestmannaeyjum o.fl. Hvernig á þjónustan að vera á þessum stöðum? Verður framtíðin líkt og gerðist með sumar heilsugæslustöðvar sem við höfum horft upp á að eru opnar nokkra klukkutíma í viku hverri? Er það það sem við eigum eftir að horfa upp á? Eða við hverju megum við búast? Mér finnst helsti gallinn á þessu frumvarpi vera sá að það kemur á engan hátt fram. Það er eins og ákveðið hafi verið að gera þetta með þessum hætti og lögin eigi að taka gildi 1. janúar 2015 en það liggur samt ekkert fyrir nákvæmlega hvað það er sem við eigum að samþykkja. Samkvæmt lögunum er það bara ráðherra sem ákveður í reglugerð hvar aðalskrifstofa sýslumanns skuli vera, í 2. gr., og ráðherra ákveður einnig í reglugerð að höfðu samráði við sýslumann hvar aðrar þjónustustöðvar verði starfræktar. Mér finnst það svolítið lítið að ráðherrann ætli eingöngu að hafa samráð við téðan sýslumann. Ættu ekki einhverjir fleiri að koma að því máli og hafa umsagnarrétt og tillögurétt í þeim efnum? Hvað með sveitarfélögin? Hvað með aðra hagsmunaaðila sem telja sig hugsanlega þurfa á meiri þjónustu að halda en ráðherrann mun gera ráð fyrir í tillögum sínum? Mér finnst þetta athugunarefni og væntanlega verður farið ítarlega yfir það í nefnd.

Það er rétt sem upp er talið, að fjölmörgum sýslumannsembættum víða um land voru falin mikilvæg verkefni sem þau fara ágætlega með. Við getum tekið sem dæmi það sem er talið upp varðandi sýslumannsembættið í Vík í Mýrdal sem annast Lögbirtingablaðið og jafnframt símsvörun fyrir embættið á Selfossi og svo mætti lengi telja. Það er ágætisupptalning í lögunum.

Ég spurði hæstv. ráðherra að því áðan hvort einhver verkefni væru í pípunum um frekari tilflutning til sýslumannsembætta. Ráðherrann fullvissaði mig um að hann ætlaði í seinni ræðu sinni að fara yfir það með okkur hvaða verkefni kæmu þar mögulega til skoðunar. Það er í rauninni nauðsynlegt fyrir málið sjálft að fyrir liggi hvort einhver slík verkefni séu í pípunum. Eins og ég sagði áðan er víða hjá embættunum gott starfsfólk sem er fullfært um að taka að sér og sinna erfiðum og auknum verkefnum. Þess vegna væri hægt að styrkja embættin með því að færa þeim aukin verkefni og með því að færa hugsanlega til verkefni frá stærri stofnunum sem hafa nóg á sinni könnu og hafa kannski ekki burði til að klára öll þau verkefni sem þeim eru falin. Þetta hefur verið gert í ýmsum embættum og með ýmis verkefni og það er eiginlega nauðsynlegt að ráðherrann upplýsi það hér af því að ég heyrði það í svari hans við andsvari mínu við ræðu hans að hann hefði eitthvað ákveðið í huga. Til að við náum einhverri heildarsýn yfir það sem er í pípunum er nauðsynlegt að það komi fram.

Annars varðandi þá umræðu sem fram hefur farið í samfélaginu varðandi hagræðingu almennt er okkur landsmönnum öllum ljóst að það þarf að skera niður í ríkisrekstri. Það er öllum ljóst og mikil og löng umræða hefur farið fram í þingsal um það með hvaða hætti eigi að gera það. Það er mín skoðun að ef allt er uppi á borðum varðandi það hvernig það verður gert, þ.e. menn sem búa víða um land og eins á höfuðborgarsvæðinu átti sig á því að jafnt skuli yfir alla ganga og að eitthvert markmið og einhver endalína sé fyrir hendi, einhver hugsun í því sem verið er að gera, þá sé hægt að gera ýmsar breytingar í rekstri ríkisins. En aðalpunkturinn í því sem ég er að segja er sá að það verður að vera ljóst hvert við stefnum, hver tilgangurinn sé. Ef á að skera það mikið niður að fólk t.d. á landsbyggðinni verði verulega vart við mikla þjónustuskerðingu tel ég að við séum að ganga of langt. Það hljóta allir að vera sammála um það.

Hvar sársaukamörkin eru er kannski nokkuð sem við þurfum að ræða hér og ég sakna þess að við höfum ekki tekið það fyrir í umræðunni, hvorki þessari né heldur að nægilegu leyti varðandi það frumvarp sem ráðherrann mælti fyrir áður um breytingar á löggæslunni. Þó að það sé vissulega tekið upp þegar við ræðum fjárlögin þá varðar það hvern málaflokk og af því að maður sér það í umsögn fjármálaráðuneytisins að ráðuneytið geri ráð fyrir því að það muni fylgja þessu hagræðing tel ég að umræða um það verði að fara fram í þinginu. Ég treysti því að þeirri umræðu verði síðan fylgt eftir í allsherjar- og menntamálanefnd, sem mun fá það verkefni að kanna hvort grundvöllur sé til að samþykkja þetta frumvarp, að fengnir verði á fund nefndarinnar bæði þeir aðilar innan ráðuneytisins sem ætla sér að búa til þá greiningu sem getið er um á bls. 32, þ.e. útfæra fjárhagsramma hinna nýju embætta, og menn frá fjármálaráðuneytinu vegna þess að sýn þeirra er, eins og ráðherrann kom inn á áðan, greinilega gerólík miðað við það sem hér hefur komið fram á það hvort og þá hvernig hagræðing muni nást fram verði þetta frumvarp að lögum.

Þetta eru þau atriði sem ég tel að nefndin þurfi að skoða. Síðan efast ég ekki um, herra forseti, að hingað muni koma fjölmargar umsagnir og skoðanir hvaðanæva að af landinu um það hvort æskilegt sé að fækka sýslumannsembættum jafnmikið og gert er ráð fyrir. Við erum að tala um að menn sjá í hendi sér að hugsanleg þjónustuskerðing er fram undan og fólk hefur ekki áhuga á því.