140. löggjafarþing — 88. fundur,  25. apr. 2012.

framkvæmdavald og stjórnsýsla í héraði.

738. mál
[19:01]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þessa ágætu umræðu sem hér hefur farið fram og þær vangaveltur sem ég hef hlýtt á.

Hugsunin með þessum breytingum er fyrst og fremst að efla þjónustuna og gera hana kröftugri. Það er verið að færa verkefni til sýslumannsembættanna og kemur til með að gerast í auknum mæli, hygg ég, á komandi árum og þá einnig í samstarfi við sveitarfélögin. Þjónustan á landsbyggðinni er að taka breytingum og hún gerist nánast af sjálfu sér, liggur mér við að segja. Af sjálfu sér er að rísa upp þriðja stjórnsýslustigið. Sveitarfélögin í landshlutum eru að taka höndum saman um skipulag almenningssamgangna. Það er alls kyns önnur þjónusta sem þau eru að sameinast um. Menn einblíndu lengi vel á sameiningu sveitarfélaga sem einu leiðina til að ná fram hagræðingu en nú eru menn að horfa á þetta á nýjan leik. Við erum að reyna að skapa öflugri stjórnsýslueiningar á landsbyggðinni og þessar breytingar eru hugsaðar sem hluti af því.

Hvar þjónustumiðstöðvar koma til með að verða, ég kann ekki svar við því. Það færi væntanlega eftir því hvar eftirspurnin yrði og þá með það í huga að fólk þurfi ekki að sækja um langan veg eftir þjónustu. Það hefur komið fram við umræðuna að við þurfum að tryggja jafnræði með þegnunum hvað varðar aðgang að þjónustu. Það er mjög mikilvægt. Ég ætla ekki að lesa upp þau verkefni, menn hafa það skráð í þinggögnum hvaða verkefnum er sinnt hjá einstökum sýslumannsembættum og víðast hvar með mjög góðum árangri. Það er hins vegar spurt um hvaða ný verkefni kunni að færast þangað. Ég nefni að verði ný barnalög lögfest þar sem kveðið er á um aukna áherslu á sáttaumleitanir í forræðisdeilum þá kemur það til með að hvíla á herðum sýslumannsembættanna. Það er verkefni sem þau koma til með að sinna. Könnun á hjónavígsluskilyrðum er verkefni sem þarf að efla og fer til sýslumannsembættis en eins og hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir sagði réttilega í umræðunni áðan þá er gert ráð fyrir, samkvæmt þessu frumvarpi, að verkefnisstjórn taki til starfa og hún mundi þá einnig horfa til þessara þátta, verkefnaflutnings af þessu tagi.

Það er álitamál hver það er nákvæmlega sem á að ákveða hvar miðstöðin er. Ég held að sveitarfélögunum á svæðinu væri ekki gerður sérstakur greiði að ákveða það ein og sér. Ég held að það sé þá frekar ríkið sem gerir það en að sjálfsögðu með ráðgjöf og aðkomu sveitarfélaganna, og ekkert óeðlilegt að þingið komi þar einnig við sögu. Við erum að reyna að horfa til fyrirkomulags sem allra mest sátt ríkir um, það erum við að reyna að gera. Ef það er eitthvað sem við teljum vera til óþurftar á þeirri vegferð þá hægjum við náttúrlega á okkur. Það fannst mér ástæða til að gera varðandi þessar breytingar sem sumir vildu taka í heljarstökki. En það er óráð hið mesta. Við erum að tala um grundvöll löggæslunnar í landinu og mikilvægrar stjórnsýslu, sýslumannsembættanna, og við komum til með að vanda vel til verka. Mér finnst það hafa komið fram við þessa umræðu að við erum mjög á einum báti og róum í sömu áttina hvað það varðar.

Ég vil þakka fyrir þessa umræðu.