140. löggjafarþing — 89. fundur,  26. apr. 2012.

störf þingsins.

[10:36]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég var ekki hér í gær og tók ekki þátt í þeirri umræðu sem átti sér stað um landsdóm og þann dóm sem féll á mánudaginn. Ég sat hins vegar í þingmannanefndinni sem fjallaði um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis þar sem hluti nefndarinnar komst að þeirri niðurstöðu að ákæra fjóra og hluti nefndarinnar komst að þeirri niðurstöðu að ákæra þrjá og aðrir tveir nefndarmenn komust að þeirri niðurstöðu að ekki ætti að ákæra.

Ákært var í þingsályktunartillögu í sex liðum. Strax í upphafi vísaði landsdómur tveimur liðum frá, landsdómur sýknaði síðan í þremur en dæmdi fyrrverandi forsætisráðherra, Geir H. Haarde, til sakfellingar en ekki refsingar í einum lið.

Í umræðu þingmannanefndarinnar, og ég tel mig ekki brjóta nokkurn trúnað þegar ég segi svo, var aldrei rætt hvaða ákæruatriði væri veigameira en önnur, aldrei. Lögð voru fram atriði sem þingmannanefndin taldi að ákæra ætti fyrir. Hún raðaði aldrei ákæruatriðum eftir þyngd. Hún lagði fram sína þingsályktunartillögu, þær komu tvær og þar voru ákæruatriðin nánast þau sömu en í fyrri þingsályktunartillögunni voru fjórir ákærðir, í seinni þrír. Það var aldrei raðað eftir þyngd ákæruatriða, (Forseti hringir.) frú forseti, aldrei, og þeir sem halda því fram núna fara einfaldlega með rangt mál.