140. löggjafarþing — 89. fundur,  26. apr. 2012.

störf þingsins.

[10:42]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Frú forseti. Ég vil taka upp umræðu sem hv. þm. Sigmundur Davíð var með áðan og snýr að Evrópusambands… (Forseti hringir.)

(Forseti (ÁRJ): Forseti biður hv. þingmann um að nefna þingmenn fullu nafni.)

Hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson vakti áðan máls á klækjabrögðum í tengslum við Evrópusambandsumsóknina. Ég rakti það hér í gær hvernig samningamanni Íslands í deilistofnum hefði verið vikið frá af hæstv. ríkisstjórn vegna makríldeilunnar. Við höfum séð hvernig haldið hefur verið á Icesave-málinu. Nú berast þær fréttir hér í morgunsárið að búið sé að taka svokallaða IPA-þingsályktunartillögu út úr utanríkismálanefnd. Samkvæmt umræðum sem voru um þetta mál hér og eftir mínum bestu heimildum hefur verið rík andstaða við það og jafnvel ekki meiri hluti fyrir IPA-málinu í utanríkismálanefnd.

Fyrir þá sem ekki þekkja má geta þess að þetta mál snýr að því að taka við milljörðum í aðlögunarstyrki frá Evrópusambandinu og veita jafnframt Evrópusambandinu algert skattfrelsi með þessa fjármuni. (Gripið fram í: Nei, nei.) Eins og ég sagði áðan hefur ríkt mikil andstaða við þetta mál, að mínu viti hefur ekki verið meiri hluti fyrir því í utanríkismálanefnd, og mig langar að spyrja hv. stjórnarliða marga hverja og jafnvel hv. þm. Árna Þór Sigurðsson sem er formaður utanríkismálanefndar hvort það sé rétt að þetta mál hafi verið tekið út í morgun, hvort þingmenn geti greint frá því með hvaða hætti það var gert og hvort einhver klækjapólitík hafi legið þar að baki. Það kann að vera að hæstv. ríkisstjórn finnist klækjapólitíkin bara kúl eins og hæstv. utanríkisráðherra sagði í umræðum fyrr í vikunni, hann sagði að það væri aðalatriði að halda kúlinu. En hið nýja Ísland snýst ekki um klækjapólitík og ég óska þess að það verði upplýst hér hvort málið er komið út úr nefnd og hvort beitt hafi verið einhverjum klækjabrögðum til að taka það út.