140. löggjafarþing — 89. fundur,  26. apr. 2012.

störf þingsins.

[10:58]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að standa í stælum við hv. þm. Magnús Orra Schram út af ræðu hans áðan. Ég held að hún dæmi sig sjálf. Við getum farið yfir það hver málflutningur þess ágæta þingmanns hefur verið í þessum málum á fyrri stigum, hvaða tillögur hann kom með inn í þingið og mælti fyrir og hvað eftir stendur af því. Við skulum fara aðeins yfir það við betra tækifæri.

Ég ætlaði hins vegar að nefna atriði sem kom upp í umræðunni áðan og varðar IPA-styrki og afgreiðslu á þeim. Ég vildi setja það í samhengi, það sem virðist hafa gerst í utanríkismálanefnd í morgun og nokkrir þingmenn hafa lýst hér í umræðunni, við hversu naumt það er á þessu þingi að koma málum sem tengjast Evrópusambandsaðildinni í gegn. Það kann að vera að einhver örlítil breyting á samsetningu utanríkismálanefndar í morgun hefði gert það að verkum að ekki hefði verið hægt að afgreiða það mál út. Ég bið hv. þingmenn að hugsa um það. Hvernig skyldi nú vera þegar þetta mál kemur hingað inn til þings? Það kann að vera að þeir sem stóðu að þessari afgreiðslu úr utanríkismálanefnd eigi eftir að reka sig á að sigurinn er ekki unninn þó að þeir hafi unnið klukkan korter yfir átta í morgun þennan áfanga.