140. löggjafarþing — 89. fundur,  26. apr. 2012.

umræða um stöðu ESB-viðræðna.

[11:06]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Hér er næst á dagskrá skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál og alþjóðamál. Ég spyr hæstv. forseta hvers vegna ekki hafi verið svarað erindi mínu sem ég sendi til forseta hinn 21. febrúar 2012 þar sem ég bað forseta um sérstaka umræðu á Alþingi um stöðu aðildarumsóknar Íslands að Evrópusambandinu og þá var sérstakt tilefni í ljósi ályktunar utanríkismálanefndar Evrópuþingsins sem síðan var staðfest af Evrópuþinginu hinn 14. mars sl. Ég óskaði þá eftir lengri umræðu samkvæmt 3. mgr. 57. gr. þingskapa og óskaði eftir því að forsætisráðherra yrði til svara fyrir hönd ríkisstjórnarinnar en hún hefur tjáð sig afdráttarlaust um Evrópusambandsmál. Auk þess laut þessi ályktun sem Evrópusambandið samþykkti hinn 14. mars sl. að fullveldi og sjálfstæði Íslands og inngripi samkomu þessa ríkjasambands í sjálfstæði og sjálfsákvörðunarrétt Íslands (Forseti hringir.) sem ég get komið nánar að.

Ég spyr hæstv. forseta: Hvers vegna hefur ekki verið orðið við þessari ósk minni? Ég hef ítrekað hana (Forseti hringir.) með bréfi til forseta nokkrum sinnum og ekki fengið svar. Mér finnst þetta fáránleg forsetastjórn og óska eftir svari frá forseta.