140. löggjafarþing — 89. fundur,  26. apr. 2012.

umræða um stöðu ESB-viðræðna.

[11:10]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Því hefur verið haldið fram í umræðunni í morgun að það hafi reynst erfitt að fá utandagskrárumræðu við mig um stöðuna í aðildarviðræðunum. Ég vil þess vegna að það komi algjörlega skýrt fram að á sínum tíma kom hv. þm. Jón Bjarnason að máli við mig og óskaði eftir umræðu sem lyti meðal annars að þeirri ályktun sem gerð var í tiltekinni nefnd Evrópuþingsins. Hann kom síðan aftur til mín og sagði mér að hann hefði snúið þeirri umræðu frá mér og að öðrum ráðherra.

Ég vil líka að það komi algjörlega skýrt fram út af því sem hv. þm. Ragnheiður Elín Árnadóttir sagði að gagnvart forseta var ég að minnsta kosti einu sinni búinn að fallast á slíka umræðu fyrir páska þannig að það er engan veginn hægt að saka mig um að hafa ekki viljað tala við þingið um þetta. Ég er alltaf boðinn og búinn til þess alveg eins og ég hef alltaf verið boðinn og búinn að ræða það í utanríkismálanefnd, og hef gert það nýlega tvisvar sinnum. Það er alveg nauðsynlegt að þetta liggi fyrir.