140. löggjafarþing — 89. fundur,  26. apr. 2012.

umræða um stöðu ESB-viðræðna.

[11:24]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Frú forseti. Það eru tvö atriði sem ég vil beina til hæstv. forseta. Ég vil í fyrsta lagi, í ljósi þeirrar umræðu sem hér hefur orðið um klækjabrögð á utanríkismálanefndarfundi í morgun, óska eftir því að frú forseti taki það mál til skoðunar því að það er algerlega ótækt, ef sú er raunin, að formaður utanríkismálanefndar, sem hefur reyndar ekki séð ástæðu til að taka þátt í þessari umræðu, hefur með klækjabrögðum komið máli út úr utanríkismálanefnd sem ekki var meiri hluti fyrir. Ég held að það sé mikið atriði að það mál verði skoðað.

Í öðru lagi vil ég taka undir þá kröfu að hér fari fram sérstök umræða um Evrópusambandsmálin og stöðu þeirra. Það er alveg ljóst að margt hefur breyst síðan þessi umsókn fór af stað og ég beini því enn á ný til hæstv. forseta, vegna þess að frú forseti sagði áðan að hægt væri að taka umræðu um Evrópusambandsmálið í umræðum um utanríkismál, að utanríkismál snúast um fleira en Evrópusambandsmál, þrátt fyrir að þingflokkur Samfylkingarinnar telji svo ekki vera.