140. löggjafarþing — 89. fundur,  26. apr. 2012.

utanríkis- og alþjóðamál.

761. mál
[11:47]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka ráðherranum fyrir skýrsluna. Ég held að við sjáum það öll ár eftir ár að það var heillaskref hjá okkur á sínum tíma að taka ákvörðun um að slík skýrsla yrði flutt í þinginu árlega.

Mig langar að biðja hæstv. ráðherra að bregðast við því sem fram koma á Evrópuþinginu í vikunni þegar Martin Schultz, forseti Evrópuþingsins, sagði að það væri raunhæfur möguleiki nú í fyrsta sinn í Evrópusamstarfinu að Evrópusambandið mundi liðast í sundur. Hvernig sér utanríkisráðherrann þá þróun sem þar er undirliggjandi, nefnilega kröfu einstakra þjóðríkja um að fá til baka völd sem þau höfðu áður framselt til Evrópusambandsins, einkum í því ljósi að frá Evrópusambandinu og sérstaklega frá framkvæmdastjórninni stafar sífellt sterkari krafa um að fá til sín enn frekari völd en þegar er orðið?