140. löggjafarþing — 89. fundur,  26. apr. 2012.

utanríkis- og alþjóðamál.

761. mál
[11:50]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er mjög mikið kjarnaatriði í tengslum við aðildarviðræður Íslendinga að Evrópusambandinu. Hvernig mun Evrópusambandið þróast inn í framtíðina, hvernig mun fara með þau átök sem ráðherrann vísar hér til og öllum er ljóst að eru til staðar?

Ég ætla að nota tíma minn hér til að taka upp annað mál sem ráðherrann vék að í ræðu sinni sem eru þær reglur sem eru í smíðum hjá Evrópusambandinu og snerta makríldeiluna. Það dylst engum sem þekkir til að reglurnar eru í smíðum vegna makríldeilunnar þó að þar sé hvergi minnst á makríl. Ráðherrann segir hér í þinginu að málið eigi ekki að hafa nein áhrif á Evrópusambandsviðræðurnar og vísar til þess að það viðhorf sé jafnframt hinum megin við borðið. En hvernig verður það ef til þess kemur að reglunum verði beitt eða því hótað að beita þeim? Hvaða áhrif telur ráðherrann að það muni hafa á aðildarviðræðurnar? Hvað ætla menn að gera á Íslandi? Ætla menn að vera í friðsamlegum viðræðum við Evrópusambandið ef það hefur lagt viðskiptabann (Forseti hringir.) á Íslendinga með mikilvægustu útflutningsafurðina?