140. löggjafarþing — 89. fundur,  26. apr. 2012.

utanríkis- og alþjóðamál.

761. mál
[11:55]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U) (andsvar):

Frú forseti. Ég er þeirrar trúar að við verðum sjálf að leysa þessa snjóhengju. Eigendur þeirra krafna sem eru í snjóhengjunni eru evrópskir, ekki síst að hluta til evrópskir bankar, og lausnirnar sem Evrópusambandið hefur haft uppi á lausn skuldavandans eru einmitt að koma áhættufjárfestingum einkaaðila yfir á skattgreiðendur.

Ég hef meðal annars lagt til að við færum þá leið að leggja á útstreymisskatt og taka upp nýjan gjaldmiðil með mismunandi skiptigengi. Ég vil jafnframt vekja athygli á því að á nýlegri ráðstefnu í Háskóla Íslands voru sérfræðingar sem hafa metið stefnu framkvæmdastjórnar ESB sammála um að norræna módelið sé ekki lengur uppi á borðum hjá framkvæmdastjórninni heldur nýfrjálshyggjumódelið sem þýðir með öðrum orðum að við Íslendingar erum að sækja um aðild að nýfrjálshyggjuklúbbi (Forseti hringir.) og nýfrjálshyggjuhugmynd sem leiddi hér til bankahruns og efnahagshruns.