140. löggjafarþing — 89. fundur,  26. apr. 2012.

utanríkis- og alþjóðamál.

761. mál
[12:06]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég get glatt hv. þingmann með því að í öllum flokkum á Alþingi Íslendinga er að finna menn sem glaðir tala fyrir umsókn um aðild að Evrópusambandinu, (Gripið fram í.) m.a. í flokki hv. þingmanns, Framsóknarflokknum. (Gripið fram í.) Ég horfi á atkvæðatölur. Þegar á sínum tíma var samþykkt ályktun um að sækja um aðild og koma heim með samning og leggja hann í þjóðaratkvæðagreiðslu þá fékk það atkvæði í öllum flokkum þingsins. Sú breyting hefur orðið að því leytinu til (Gripið fram í.) að þá áttu fimm flokkar sæti á Alþingi, tveir þeirra höfðu það á stefnuskrá sinni samkvæmt samstarfsyfirlýsingu að koma þessu máli í þjóðaratkvæði. Nú eiga sjö flokkar sæti á Alþingi og þar af eru fjórir þessarar skoðunar, tveir nýir flokkar hafa (Gripið fram í.) beinlínis skrifað það í stefnuskrá sína, Björt framtíð og Samstaða. Mér þykir því heldur sem hagur strympu hafi vænkast (Forseti hringir.) frekar en hitt. (Gripið fram í.)