140. löggjafarþing — 89. fundur,  26. apr. 2012.

utanríkis- og alþjóðamál.

761. mál
[12:31]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Í fljóti bragði sé ég nú ekki að svo sé. Ég skil reyndar að þegar semja þarf við fleiri ríki sem eru þegar komin inn og þegar menn hafa fjölgað köflunum sem þarf að semja um kann flækjustigið eitthvað að hafa aukist. En það sem breyst hefur varðandi viðræðuferlið sem hv. þingmaður vísar til er að nú gerir Evrópusambandið almennt kröfu um aðlögun áður en til samnings kemur, en ég hélt að við hefðum samið okkur frá því atriði. Að því leytinu til er aðstaðan á Íslandi sambærileg við það sem var þegar til að mynda Svíar gengu þarna inn.

Hvað sem öllu þessu líður er augljóst að hinar hástemmdu yfirlýsingar sem voru hér uppi á vormánuðum og sumar 2009, um að halda þjóðaratkvæðagreiðslu á þessu kjörtímabili eða ljúka aðildarviðræðum, jafnvel að fara að taka upp evruna eða komast í ERM-samstarf — við höfum haft hér ráðherra lengi vel sem hefur verið vongóður um að komast í samstarf við Evrópusambandið jafnvel á meðan á viðræðum stæði um upptöku evru o.s.frv. Ekkert af þessu hefur staðist. Ekki neitt.

Ég held við eigum að horfast í augu við það að þrátt fyrir öll fögru orðin um að taka erfiðu og mikilvægu kaflana á dagskrá sem allra fyrst hefur ekkert annað gerst í þrjú ár en að við höfum lokað köflum sem ekki þurfti að semja um þar sem aðlögun var svo einföld að það var varla fundarins virði að ræða það hvort breyta þyrfti löggjöf á Íslandi. Við höfum komið frá okkur samningsafstöðu í nokkrum köflum, en allt kjötið, allt það sem mest hefur verið rætt um hér á þinginu og ber uppi nefndarálit utanríkismálanefndar, bíður þó að liðin séu þrjú ár.