140. löggjafarþing — 89. fundur,  26. apr. 2012.

utanríkis- og alþjóðamál.

761. mál
[12:35]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég hygg að það sé staðfest, sem ég hef hér haldið fram, að ósamræmið í áherslum stjórnarflokkanna í Evrópusambandsmálum sé meðal þeirra ástæðna sem liggja að baki. Þetta kemur til dæmis fram á bls. 24 og 25 í skýrslunni þar sem segir að Evrópusambandið hafi ákveðið að setja opnunarviðmið og óska eftir því að Ísland legði fram tímasetta aðgerðaáætlun um undirbúning á sviði landbúnaðarmála. Í upphafi næstu málsgreinar segir síðan:

„Stjórnvöld vinna nú að umræddri aðgerðaráætlun en vinna við hana komst ekki á skrið fyrr en í ársbyrjun 2012.“

Hvers vegna skyldi það nú vera? Hvers vegna skyldi það nú vera að það fór ekkert af stað fyrr en Steingrímur varð landbúnaðarráðherra? (Gripið fram í: Say no more.) Þetta er lýsandi dæmi um þann vanda sem stjórnarflokkarnir komu sér sjálfir í með opin augun. Ég stóð í þessum ræðustól og vakti athygli þeirra sem helst töluðu fyrir því að sækja um. Ég sagði: Þeir sem vilja gera það og vilja ganga í Evrópusambandið, eða eftir atvikum vilja leiða fram samning bara til þess að taka afstöðu um hann, eru að gera málstaðnum grikk með þessum málatilbúnaði. Ég tel að það sé komið í ljós vegna þeirra miklu tafa sem orðið hafa á viðræðunum og við höfum séð hér í hverju málinu á fætur öðru — reyndar síðast í dag undir liðnum fundarstjórn forseta þar sem ráðherrann sem vék úr stóli landbúnaðarráðherra gerði athugasemdir við að fá ekki að ræða Evrópusambandsmálin hér á Alþingi við forsætisráðherrann.

Ef á Alþingi væri skýr meiri hluti með ákveðna stefnu fyrir því að ganga í Evrópusambandið, fá samning, hef ég nokkuð góða sannfæringu fyrir því að sá samningur væri þegar kominn fram.