140. löggjafarþing — 89. fundur,  26. apr. 2012.

utanríkis- og alþjóðamál.

761. mál
[12:37]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir málefnalega ræðu. Sérstaklega vil ég þakka honum fyrir þann skilning sem birtist á mikilvægi þróunarsamvinnustarfsins og líka það mat hans að vel hafi tekist til. Mér þykir vænt um það og eins og ég sagði í ræðu minni var ég þakklátur fyrir þann stuðning sem hv. þingmaður og flokkur hans sýndi því máli í fyrra.

Mér fannst ræða hv. þingmanns vera mjög málefnaleg og skemmtileg að mörgu leyti. Við byrjuðum í morgun á að eiga orðastað um þróunina sem er innan Evrópusambandsins. Það þarf engan að undra þegar þessi tvö sjónarmið takast á að menn taki til orða eins og Martin Schultz gerði. Þetta hafa verið átök mjög lengi. Við vitum það og við finnum það í samningaviðræðunum að Frakkar hafa verið mjög fastir á þeirri skoðun að betra sé að hafa hemil á stækkuninni og dýpka frekar samvinnuna. Það hefur verið þeirra forgangsmál. Við höfum verið á annarri skoðun. Bretar hafa verið á annarri skoðun. Átökin hafa meðal annars birst í því að þegar evruglíman var stigin af hvað mestu kappi komu fram mjög róttækar skoðanir um aukið miðstýringarvald til höfuðstöðvanna í Brussel. Því var andæft af mjög mörgum. Það andóf hefur að mörgu leyti tekist. Þó að ekki sjái algjörlega til lands í þeim efnum sýnist mér samt sem áður að allt hnígi að því, ef ég tek eftirlitsstofnanirnar frá, að valdið sem menn vildu beinlínis kalla til Brussel sé öðruvísi en upp á var lagt.

Mig langar líka að spyrja hv. þingmann út í meðalgönguna, þ.e. hvernig hann hefði brugðist við ef hann hefði verið utanríkisráðherra og fengið skýra leiðbeiningu um það hvað málflutningsmanni og málsvarnarteymi þótti best.