140. löggjafarþing — 89. fundur,  26. apr. 2012.

utanríkis- og alþjóðamál.

761. mál
[12:42]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Ég sé að viðbrögð hv. þingmanns yrðu ekki öðruvísi en mín ef hann settist einhvern tímann á stól utanríkisráðherra. Staðreyndin er sú að það sem hv. þingmaður lýsti sem háttsemi sinni hefði hann verið í minni stöðu er nákvæmlega það sem ég gerði. Það var nákvæmlega þetta sem hv. þingmaður lýsti eins og hann veit.

Að öðru leyti vil ég segja að það ætti ekki að koma hv. þingmanni á óvart varðandi meðalgönguna að hún birti það viðhorf Evrópusambandsins að það hefði beinna hagsmuna að gæta af þessu máli. Það hefur alltaf legið ljóst fyrir, algjörlega skýrt. Ég var þeirrar skoðunar. Þess vegna heyrði hv. þingmaður mig aldrei tala fjálglega um Brussel-viðmiðin á sínum tíma eins og sumir aðrir, meðal annars hv. þingmaður sem gerði það að leiðarstefi í ræðum sínum um skeið hér í þinginu. Ég var alltaf þeirrar skoðunar að í Brussel-viðmiðunum birtist nákvæmlega það að Evrópusambandið teldi sig hafa beina hagsmuni af því að skapa aðstæður til að við borguðum þetta allt saman með tómat og sinnepi á þeim tíma. Þess vegna heyrði hv. þingmaður mig aldrei fagna þeim. Ég taldi að þar lægi sá fiskur undir steini. Sá steinn skaut að minnsta kosti upp kolli á frægum fundi þar sem kúga átti fjármálaráðherra Sjálfstæðisflokksins á sínum tíma til eftirgjafar til að halda ákveðinn fund. Sá fundur var ekki haldinn vegna þess að utanríkisráðherra bannaði sínum mönnum að fara þangað. Stundum tökum við réttar ákvarðanir.

Ég vil líka segja að þessi afstaða Evrópusambandsins hefur komið fram mörgum sinnum, til dæmis með bréfi 2010 frá Barnier, einum af stjórum þess, til fjármálaráðherrans. Gæti ég svo átt lengri viðræður við hann um margt sem hann sagði skynsamlegt, en hv. þingmaður má ekki svara mér aftur. Ég ætlaði að spyrja hann. (Gripið fram í: Jú.)

Jú, er hann þeirrar skoðunar að Ísland ætti þá hugsanlega að ganga í Evrópusambandið án þess að notfæra sér þann möguleika að taka upp evruna?