140. löggjafarþing — 89. fundur,  26. apr. 2012.

utanríkis- og alþjóðamál.

761. mál
[12:44]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að Evrópusambandið, þegar það reyndi að miðla málum veturinn 2008–2009, hafi fyrst og fremst viljað forða því að deila Íslendinga við Breta og Hollendinga færi fyrir dómstóla. Það held ég hafi verið aðalhvatinn. Þeir hafa örugglega óttast að niðurstaðan gæti orðið skaðleg fyrir Evrópusambandið í heild sinni. Þeir hafa örugglega gert sér grein fyrir gallanum á regluverkinu og þeir hafa einfaldlega verið að vonast eftir friðsamlegri niðurstöðu. Hagsmunir þeirra lágu í því að veikleiki kerfisins yrði ekki dreginn fram í dagsljósið á þeim tíma sérstaklega og reyndar alveg síðan.

Bretar og Hollendingar hefðu þannig getað uppfyllt þessar væntingar framkvæmdastjórnarinnar með því að halda ekki á lofti svona stífum kröfum, heldur semja um eitthvað sem var sanngjarnt í uppgjörinu við Íslendinga. Það gerðu þeir alls ekki, sérstaklega ekki framan af.

Varðandi Evrópusamrunann að öðru leyti er erfitt að tjá sig um það með hvaða hætti maður mundi vilja ganga inn í Evrópusamband sem ekki er til, þ.e. að notfæra sér mismunandi útfærslur á Evrópusamstarfi þegar þær hafa ekki verið þróaðar. Evrópusambandið hefur einfaldlega fram til þessa sagt: EES-samningurinn er úreltur. Hann þvælist fyrir okkur. Við mundum mjög gjarnan vilja vera lausir undan honum, en við ætlum að virða hann. Að öðru leyti er það bara eitt skapalón fyrir alla sem eru hér inni. Undantekningarnar eru þessar nýjustu aðgerðir varðandi evruna og Schengen sérstaklega. Það eru þessar fábrotnu undantekningar sem við höfum séð.

Ég hefði viljað sjá að við þróuðum EES-samninginn áfram, skoðuðum valkostina sem okkur stæðu til boða. Gjaldmiðilsmálin þurfa að koma þar til skoðunar líka. Ég mundi líka vilja opna viðræður við Evrópusambandið, til dæmis um tollamál og frjálsari viðskipti, að við (Forseti hringir.) gætum aukið aðgang að mörkuðum á grundvelli þess samnings sem við erum nú þegar með í hendi. Við þyrftum að gefa eitthvað eftir af tollum vegna innflutnings, en við fengjum ríkari aðgang fyrir útflutningsafurðirnar.