140. löggjafarþing — 89. fundur,  26. apr. 2012.

utanríkis- og alþjóðamál.

761. mál
[13:31]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Ég ætla að byrja á því að ræða aðeins um aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu og sjá svo til hvort tími gefst til að fara yfir fleiri atriði sem fjallað er um í skýrslu utanríkisráðherra. Ég tel sérstaka ástæðu til að fara aðeins yfir Evrópusambandsmálin vegna þess að í skýrslunni birtist enn og aftur röng mynd af þessu ferli, a.m.k. eru áherslurnar hvað umfjöllunina varðar dálítið sérkennilegar. Það er reyndar í samræmi við hvernig að þessari umsókn hefur verið staðið frá upphafi en hún hefur verið kynnt af ríkisstjórninni á þann hátt að Ísland væri að sækja um aðild að Evrópusambandinu, ekki endilega til að ganga í Evrópusambandið, heldur til að kanna hvað okkur stæði þar til boða. Þetta er algjörlega ný nálgun á umsókn um aðild að Evrópusambandinu eins og þeir sem tekið hafa þátt í Evrópusamstarfi á undanförnum árum hafa svo oft fengið að heyra frá fulltrúum Evrópusambandsins, þingmönnum af þingum Evrópusambandsþjóða og öðrum sem hafa skoðun á þessari umsókn, að þetta sé kolröng nálgun hjá Íslendingum, menn sæki um aðild að Evrópusambandinu vegna þess að þeir vilji verða aðilar að Evrópusambandinu. Þegar 300 þúsund manna þjóð sæki um að verða þátttakandi í sambandi 27 ríkja og mörg hundruð milljóna manna sé sú þjóð að sækja um að verða þátttakandi í því sem það samstarf gengur út á, það sé ekki um sameiningarviðræður að ræða.

Jafnframt höfum við margoft fengið að heyra að umræðan á Íslandi sé dálítið skökk vegna þess hversu mikil áhersla sé lögð á hugsanlegan efnahagslegan ávinning af aðild að Evrópusambandinu eða hvort um slíkan ávinning sé að ræða. Hvað eftir annað hefur okkur verið bent á að menn eigi að sækja um aðild að Evrópusambandinu vegna þess að þeir vilji vera þátttakendur í þeirri hugsjón sem Evrópusamstarfið gengur út á, það sé ekki viðeigandi að velta því fyrst og fremst fyrir sér hvort menn geti grætt peninga á því að ganga í Evrópusambandið. Þannig að öll þessi umræða um Evrópusambandið á Íslandi og aðild að því hefur frá upphafi verið mjög á skjön við það sem eðlilegt geti talist og það hefur ekki breyst sama á hverju hefur gengið. Við höfum horft upp á heimssögulega efnahagskrísu, evrukrísuna svokölluðu, sem orðin er til vegna þess hvernig Evrópusambandslöndin hafa haldið á málum og af áhrifum evrunnar á skuldavanda þeirra. Það hefur ekki truflað hæstv. utanríkisráðherra eða aðra stjórnarliða nokkurn skapaðan hlut, raunar hafa menn gengið alveg ótrúlega langt í hreinni og klárri afneitun hvað þessa hluti varðar í stað þess að ræða nauðsynleg viðbrögð við þessari þróun. Ég ætla að koma aðeins betur inn á það á eftir en klára þetta með forsendur umsóknarinnar vegna þess að því hefur verið mótmælt, og það er liður í þessari afneitun eða villandi umræðu, að Ísland sé í nokkurs konar aðlögun að Evrópusambandinu. Og þá virðist ekki skipta nokkru einasta máli þótt Evrópusambandið sjálft reyni hvað eftir annað að benda Íslendingum á að þeir séu í aðlögun og þurfi að herða á aðlöguninni, og sjái jafnvel ástæðu til þess að skipta sér af innlendum stjórnmálum með þeim hætti að fagna sérstaklega brotthvarfi eins ráðherra úr ríkisstjórn, þeim ráðherra sem hafði kannski einna mest þvælst fyrir, að þeirra mati, þeirri aðlögun sem gerð er krafa um af hálfu Íslendinga. Þetta hefur komið fram bæði munnlega og skriflega, til að mynda strax haustið 2010 þegar komið var á svokallaðri sameiginlegri þingmannanefnd Íslands og Evrópusambandsins.

Í framhaldi af því lýsti Evrópusambandið því yfir að laga þyrfti stjórn- og dómskerfi Íslands að regluverki Evrópusambandsins áður en til aðildar kæmi og það hversu hratt aðildarviðræður gengju færi eftir því hversu hratt Íslendingum tækist að uppfylla kröfur vegna aðildar. Þetta getur ekki verið miklu skýrara. Reyndar var við sama tækifæri ítrekað að Ísland þyrfti að klára Icesave-samningana og það þar með tengt beint við aðildarviðræðurnar. En það eins og svo margt annað hefur engu breytt hvað varðar viðhorf eða svör hæstv. utanríkisráðherra og fleiri stjórnarliða, menn loka bara augunum fyrir því sem þeim þykir óþægilegt og halda áfram að ræða hlutina eins og þeir hafi ekki heyrt það sem frá Evrópusambandinu kemur.

Það var afskaplega óheppilegt að farið skyldi af stað í þessa vegferð á þennan hátt og í rauninni á fölskum forsendum. Það var líka óheppilegt að þetta skyldi gert án þess að almenningur, þjóðin, yrði spurð álits vegna þess að ef ríkisstjórnin hefði þorað, ef Samfylkingin hefði þorað að heyra álit almennings á því hvort menn vildu sækja um aðild að Evrópusambandinu og meiri hluti hefði verið fyrir því hefði verið eitthvert umboð til staðar til að fara í þessa vegferð. En þegar farið er af stað í þetta sem hluta af hrossakaupum milli ríkisstjórnarflokka þar sem annar stjórnarflokkurinn lýsir því yfir um leið og hann greiðir atkvæði með umsókninni að hann ætli frá þeim degi að gera hvað sem hann geti til þess að berjast gegn henni er ekki von á góðu með umsóknarferlið eins og komið hefur á daginn.

Ýmsu var haldið fram til að fá þessa umsókn samþykkta eða til að reyna að skapa stuðning við að lagt yrði af stað í þessa vegferð. Því var haldið fram að Íslendingar gætu fengið hraðferð, sérstaka hraðferð inn í Evrópusambandið, Ísland gæti jafnvel verið komið inn á undan Króatíu. Menn vita hvernig það fór. Heil kosningabarátta Samfylkingarinnar árið 2009 var rekin út á það að ef við sæktum um aðild, bara við það að sækja um aðild, mundi krónan styrkjast og fjárfesting mundi byrja að streyma til landsins. Bara það að leggja inn umsókn mundi styrkja gengi gjaldmiðilsins og auka verulega á fjárfestingu.

Hver varð raunin hvað þetta varðar? Daginn eftir að Alþingi samþykkti umsókn um aðild að Evrópusambandinu féll gengi krónunnar og fjárfesting er í sögulegu lágmarki. Fjárfesting er sú lægsta sem hún hefur verið á Íslandi sem hlutfall af landsframleiðslu frá því að mælingar hófust. Þetta er hin raunverulega niðurstaða af loforðunum sem gefin voru fyrir kosningarnar 2009, loforðum eða fyrirheitum sem eins og svo margt annað í þessu eiga ekki við rök að styðjast. En menn láta það ekki trufla sig einhverra hluta vegna þó að þeir séu hvað eftir annað staðnir að því að fara með rangt mál, afneituninni er hreinlega haldið áfram.

Reyndar hafa stundum komið meldingar frá Evrópusambandinu um að umsóknin gæti gengið hratt fyrir sig, frá ákveðnum aðilum þar. Má þar nefna fyrrverandi utanríkisráðherra Spánar sem sagði, hugsanlega sem lið í því að fá Ísland til að sækja um aðild, eða rétt eftir að aðildarumsókn var samþykkt, og til að stappa stálinu í Íslendinga hvað það varðaði, að samningur gæti verið í höfn í júní 2010. Það eru nú að verða komin tvö ár síðan. En hann sagði líka að Íslendingar ættu ekki að hafa áhyggjur af sjávarútvegsmálum, utanríkisráðherra Spánar. Ég veit vel að Spánverjar hefðu ekki miklar áhyggjur af því að fá Ísland inn í Evrópusambandið, þeir hafa nú nokkrir lýst sérstökum áhuga á því að geta orðið þátttakendur í nýtingu íslenskra sjávarauðlinda. En hver er staðan í þeim málum? Það var ýmsu haldið fram hvað varðar sjávarútvegsmálin, eins og svo mörgu öðru, þegar farið var af stað með þessa vegferð og er enn. Því var haldið fram að Íslendingar gætu, einir þjóða, fengið sérstakar undanþágur í sjávarútvegsmálum. Svo var reyndar breytt um tón hjá hæstv. utanríkisráðherra sem allt í einu fór að halda því fram að Íslendingar þyrftu jafnvel ekki sérstakar undanþágur í sjávarútvegsmálum, regluverkið dygði okkur.

Hvað þetta varðar eins og svo margt annað hafa fulltrúar Evrópusambandsins sjálfs reynt að útskýra fyrir Íslendingum að um undanþágu sé ekki að ræða. Gekk þetta meira að segja svo langt að á þessum fundi sameiginlegrar þingmannanefndar Íslands og Evrópusambandsins sem ég nefndi áðan stóð til að setja í ályktun sérstaka klausu um mikilvægi sérstöðu íslensku fiskveiðilögsögunnar eða eins og það var orðað, með leyfi forseta, um „einstæð landfræðileg einkenni íslensku fiskveiðilögsögunnar“.

Þetta átti að nefna í ályktun nefndarinnar. Að kröfu Evrópusambandsins var þessi lína felld út. Evrópusambandið benti í staðinn á það að menn ættu að temja sér uppbyggjandi viðhorf til sameiginlegrar fiskveiðistefnu Evrópusambandsins. Íslendingar ættu, í viðræðum við Evrópusambandið, að temja sér uppbyggjandi viðhorf til fiskveiðistefnu Evrópusambandsins.

Við höfum svo fengið að heyra það ítrekað að sameiginlega fiskveiðistefnan sé ein af grunnstoðum ESB og ekki hægt að ætlast til þess að fá varanlegar undanþágur frá henni, menn skuli ekki reyna það. Enda kemur á daginn að Evrópusambandið treysti sér ekki til að hefja viðræður við Ísland um sjávarútvegsmál vegna þess að sameiginlega fiskveiðistefnan er í endurskoðun, sameiginlega sjávarútvegsstefnan.

Menn héldu, sumir hverjir, að Ísland mundi hafa svo mikil áhrif á sjávarútvegsmál að Evrópusambandið færi nánast að aðlaga sig að íslenskum aðstæðum og taka upp íslenskar reglur, þær reglur sem hentuðu Íslandi best. Sú hefur nú ekki orðið raunin. Verið er að endurskoða sjávarútvegsstefnuna og Ísland verður að bíða á meðan það er gert. Hins vegar virðist ekki stranda eingöngu á Evrópusambandinu hvað þetta varðar því að fulltrúar Íslands eru ekki einu sinni búnir að móta samningsafstöðu sína um sjávarútvegskaflann þrátt fyrir allt talið um að þetta yrði sett í forgang, menn mundu byrja á því að ræða sjávarútvegsmálin til að fá niðurstöðu í þau mál. Forgangurinn hefur ekki verið meiri en svo að menn vita ekki almennilega hvað ríkisstjórnin er tilbúin að samþykkja í sjávarútvegsmálum. Þó fullyrti hæstv. utanríkisráðherra fyrir kosningarnar 2009 að Íslendingar mundu ekki sækja um aðild að Evrópusambandinu nema fyrir lægju skilyrði í sjávarútvegs-, landbúnaðar- og myntmálum. Nú er búið að sækja um aðild og menn vita ekki almennilega enn þá hvað þeir ætla að semja um í sjávarútvegsmálunum. En skilaboðin frá Evrópusambandinu eru skýr: Menn skulu aðlaga sig að stefnu ESB.

Svo mikilvægt töldu menn að reyna að koma Íslendingum í skilning um hvers eðlis það væri að sækja um aðild að ESB að í bréfi frá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins til fyrrnefndrar sameiginlegrar þingmannanefndar Íslands og Evrópusambandsins er tekið fram að það geti verið villandi að tala um samningaviðræður Íslands og Evrópusambandsins vegna þess að það gefi til kynna að verið sé að semja um eitthvað. Raunin sé hins vegar sú að viðræðurnar snúist um hvernig Ísland ætli að aðlaga sig að Evrópusambandinu.

Þrátt fyrir þetta, þrátt fyrir tilraunir Evrópusambandsins sjálfs til að útskýra fyrir Íslendingum út á hvað umsókn um aðild að Evrópusambandinu gengur, sitjum við uppi með ríkisstjórn sem heldur því enn þá fram að við séum að sækja um aðild að Evrópusambandinu til að sjá hvers konar samningur okkur verði boðinn, hvað komi út úr viðræðum um sameiningu Íslands og Evrópusambandsins og ekki sé hægt að taka afstöðu til aðildar að ESB vegna þess að við vitum ekki hvað í samningnum verður. Þetta gengur í berhögg við það sem Evrópusambandið sjálft reynir hvað eftir annað að útskýra fyrir Íslendingum.

Til viðbótar við þann áróður sem ég hef áður nefnt er því haldið fram að Evrópusambandinu fylgi ýmis fríðindi, einkum efnahagsleg. Ég kom reyndar aðeins inn á þetta í byrjun, þessa áherslu í Evrópusambandsáróðrinum, áherslu á hugsanlegan gróða.

Já Ísland eru samtök sem hafa tekið upp á því að auglýsa núna í útvarpi og blöðum, væntanlega talið ástæðu til þess vegna þess hversu lítill stuðningur við aðildarferlið er, en þar er fólki nánast lofað ókeypis peningum ef það styðji aðild að Evrópusambandinu, að vextir verði lægri og matur ódýrari. Og þá kjósa menn að líta fram hjá því að hafi evrukrísan sýnt okkur eitthvað, hafi einhver rauður þráður verið í allri umræðu, hvort heldur er fræðimanna eða stjórnmálamanna, um þá krísu, eða menn skoðað tölur á blaði, þá er það að sameiginleg mynt tryggir ekki sameiginlega vexti. Spyrjið bara Spánverja, Íra, Ítala. Spánverjar og Ítalir til að mynda hafa að undanförnu verið að borga 5, 6, 7 og jafnvel meira en 7% vexti á ríkisskuldum, ríkistryggðum lánum, 7% vexti á evrur. Menn geta því ímyndað sér hvaða áhrif það hefur fyrir heimilin ef menn ætla ekki, sem þeir geta auðvitað ekki, að halda endalaust áfram að niðurgreiða útlán bankanna.

Þessi áróður um lægri vexti með aðild að ESB er vægast sagt sérkennilegur ef menn hafa fyrir því að fylgjast með því sem er að gerast utan landsteinanna. Og hvað með ódýra matinn? Könnun Evrópusambandsins sjálfs á matvælaverði í Evrópu leiddi í ljós að matur væri einna ódýrastur á Íslandi. Matur væri sem sagt að jafnaði orðinn ódýrari á Íslandi en í flestum Evrópulöndum og átti það sérstaklega við um innlend matvæli, innlendar landbúnaðarafurðir.

Hæstv. utanríkisráðherra sagði þegar hann fór yfir skýrslu sína áðan að nauðsynlegt væri að ganga í Evrópusambandið til að skapa störf, lægri verðbólgu, afnám verðtryggingar og gott ef hann fór ekki líka að tala um lægri vexti og lægra matvælaverð. Er þetta raunin? Hver er staða þessara mála í Evrópusambandinu? Skapa störf með því að ganga í Evrópusambandið, var það fyrsta sem hæstv. utanríkisráðherra nefndi. Hvernig er atvinnuleysið í Evrópusambandinu samanborið við á Íslandi? Hér gengum við í gegnum hrun nánast alls fjármálakerfisins og atvinnuleysi er nú 6–7% á meðan það fór í 15% á Írlandi. Ekki hvað síst vegna þess að Írar sátu uppi með evruna og gátu ekki aukið framleiðslu og útflutning eins og Íslendingar hafa gert. Það hlífði hins vegar ekki írskum heimilum vegna þess að launin á Írlandi voru einfaldlega lækkuð. Opinberir starfsmenn á Írlandi til að mynda hafa mátt þola tugprósenta lækkun launa sinna og vextir á lánum hafa hækkað, vextir á fasteignalánum. Dálítil hækkun á prósentustigi vaxta þar þýðir veruleg hækkun á mánaðarlegum greiðslum. Atvinnuleysi í Evrópusambandinu hefur ekki verið jafnmikið og það er núna árum eða áratugum saman. Á Spáni er atvinnuleysi ungs fólks komið yfir 50%. Og meðaltalsatvinnuleysi í Evrópusambandinu er auðvitað miklu meira en jafnvel á Íslandi þó að ástand þeirra mála hafi í gegnum tíðina yfirleitt verið miklu betra á Íslandi en það er nú.

Hæstv. utanríkisráðherra talaði líka um snjóhengjuna svokölluðu upp á rúmlega þúsund milljarða. Já, menn viðurkenna þó núna að þessi snjóhengja sé komin yfir þúsund milljarða. Það var reynt að fela þá staðreynd þegar reynt var að fá almenning til að taka á sig Icesave-skuldbindingarnar, þá var reynt að fela raunverulega stöðu ríkisins eða Íslands hvað varðar gjaldeyrisjafnvægi. (Utanrrh.: Ég held hún sé 1.200.) Nú kallar hæstv. utanríkisráðherra fram í að talan sé líklega um 1.200 milljarðar, hún er alla vega gríðarlega há. En leysum við það með því að ganga í Evrópusambandið? Hæstv. ráðherra nefndi að koma mætti krónunni í skjól með þátttöku í ERM II samstarfinu og með stuðningi Evrópska seðlabankans. Telur hæstv. ráðherra að það sé ókeypis? Telur hæstv. ráðherra að Seðlabanki Evrópu ætli að láta Íslendinga fá peninga ókeypis? Eða leggur hæstv. ráðherra til að Ísland taki gríðarlega háar upphæðir að láni hjá Evrópska seðlabankanum í erlendri mynt til að borga út þessa erlendu krónubréfaeigendur? Það væri mikið hættuspil. Raunar er margt hættulegt í þessu spili öllu saman sem ég næ ekki að fara yfir vegna þess að ræðutíminn er nú liðinn. Því vil ég biðja þingforseta að setja mig aftur á mælendaskrá.