140. löggjafarþing — 89. fundur,  26. apr. 2012.

utanríkis- og alþjóðamál.

761. mál
[13:53]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Stefna Framsóknarflokksins er sú að Íslandi sé best borgið utan Evrópusambandsins. Ég hef hins vegar bent á að það gæti verið skynsamlegast fyrir alla, þar með talið Samfylkinguna, að gert yrði hlé á viðræðum á meðan í ljós kemur hvernig samband Evrópusambandið ætlar að vera og á meðan friður kemst á milli Íslands og Evrópusambandsins. Þegar sú verður raunin að Evrópusambandið veit hvernig það ætlar að vera, m.a. hvernig sjávarútvegsstefnu það ætlar að reka, og búið verður að semja frið milli Íslands og ESB þá ætti þjóðin að fá að taka um það ákvörðun hvort hún vildi halda þessu aðildarferli áfram. Ef menn samþykktu það í þjóðaratkvæðagreiðslu væri umsóknin komin með það umboð sem umsókn um aðild að Evrópusambandinu þarf að hafa til að vera marktæk og raunhæf. Ef ekki þá þarf ekki að hugsa meira um það næstu árin.

En hv. þingmaður spurði líka út í afstöðu til gjaldmiðilsmála. Við framsóknarmenn höfum staðið fyrir mikilli umræðu um ólíka kosti hvað það varðar en aðalatriðið og það sem ekki má missa sjónar á er að sama hvaða við ætlum að gera þá þurfum við að byrja á sömu hlutunum óháð því hver niðurstaðan á að verða.

Ég gleð oft samfylkingarmenn í þinginu og annars staðar með því að segja að menn ættu að sammælast um það að reyna fyrst að uppfylla Maastricht-skilyrðin eða eitthvað í líkingu við þau vegna þess að við munum alltaf þurfa að ná tökum á skuldavanda ríkisins og á verðbólgunni. Ekki er hægt að gera neitt í gjaldmiðilsmálum, ekki taka upp evru með aðild að ESB eða nokkuð annað nema fjárfesting fari af stað á Íslandi. Allt veltur þetta á því að það séu einhver tækifæri til að fjárfesta hér á landi til að skapa verðmæti, flytja meira út og rétta stöðu Íslands (Forseti hringir.) gagnvart útlöndum. Án fjárfestingar höfum við enga kosti í stöðunni.