140. löggjafarþing — 89. fundur,  26. apr. 2012.

utanríkis- og alþjóðamál.

761. mál
[13:57]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það styttist í kosningar og nýir flokkar þurfa auðvitað að marka sér einhverja sérstöðu, svoleiðis að ég skil þá tilburði hjá hv. þingmanni vel. Ég skil hins vegar ekki alveg stefnu Samstöðu, eins og flokkurinn er kallaður, en mér heyrist hún vera sú að það sé rétt að halda atkvæðagreiðslu um ESB út frá þeim töfum sem hafa orðið á umsóknarferlinu og þar af leiðandi sé hv. þingmaður þeirrar skoðunar að niðurstaðan úr þjóðaratkvæðagreiðslunni verði sú að hætta eigi aðildarviðræðum. Ég er svo sem alveg til í slíka þjóðaratkvæðagreiðslu, en ég held bara að það væri skynsamlegra að hún færi fram þegar Evrópusambandið veit hvernig samband það ætlar að verða.

Ég get fallist á það sem málamiðlun að halda slíka þjóðaratkvæðagreiðslu strax. Ég er bara að reyna að vera sanngjarn við alla og þar með talið hæstv. utanríkisráðherra og gefa honum séns því að hann heldur því fram að eftir ekki svo langan tíma verði Evrópusambandið orðið sterkara en nokkru sinni fyrr og evran verði frábær. Það er alveg sjálfsagt mál að gefa honum tækifæri í tvö ár eða hversu langan tíma sem hann telur að það taki og halda atkvæðagreiðsluna þá. Ég er líka tilbúinn að halda atkvæðagreiðslu um aðild að Evrópusambandinu strax og skil vel rök hv. þingmanns um að það þurfi að koma þessu máli út úr heiminum til þess að við sitjum ekki endalaust undir vitleysisumræðu Samfylkingarinnar um að Evrópusambandið leysi alla hluti. Ég skil þau rök mjög vel.

Raunin er hins vegar sú að heljartak Samfylkingarinnar á Vinstri hreyfingunni – grænu framboði virðist vera slíkt að þessu ferli verði haldið áfram, sama þó að ekkert gangi og sama þó að allt sé í tómu rugli, og ekki verði þjóðaratkvæðagreiðsla fyrr en búið verði að knýja fram meiri hluta með auglýsingaherferðum eða tilbúningi eins og þeim sem ég fór yfir í ræðunni áðan, svoleiðis að ég er (Forseti hringir.) að reyna að finna leið sem er raunsæ og kemur til móts við alla. (LMós: Miðjumoð?) Já.