140. löggjafarþing — 89. fundur,  26. apr. 2012.

utanríkis- og alþjóðamál.

761. mál
[14:22]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég verð líka að leiðrétta hv. þm. Jón Bjarnason því að ég sagði ekki í máli mínu að það væri stefna VG að sækja um aðild. Ég rakti þá þrjá liði sem samþykktir voru í landsfundarsamþykkt VG 2009 og að ég teldi að það ferli sem nú væri í gangi væri ekki á skjön við það sem þar var samþykkt vegna þess að Alþingi samþykkti jú að sækja um aðildina og miðað við þá niðurstöðu Alþingis tel ég að það sem við sögðum í landsfundarsamþykkt okkar 2009 fjalli einmitt um opna og lýðræðislega umræðu og um þjóðaratkvæðagreiðslu um niðurstöðu samninga.

Varðandi landbúnaðar- og matvælamálin vil ég líka segja að það er rétt að Bændasamtökin hafa sett ákveðnar varnarlínur í því efni. En Bændasamtökin setja ekki samningsskilyrði fyrir hönd Alþingis eða íslenskra stjórnvalda, þau koma bara sjónarmiðum sínum á framfæri. (Forseti hringir.) Það er ágætlega rakið í nefndaráliti meiri hluta utanríkismálanefndar hvaða sjónarmið eigi að hafa að leiðarljósi í landbúnaðar- og matvælamálum og ég tel mikilvægt að halda sig við þau því að þau eru það umboð (Forseti hringir.) sem stjórnvöld hafa frá Alþingi. Stjórnvöld sækja ekki umboð sitt til hagsmunasamtaka úti í bæ.