140. löggjafarþing — 89. fundur,  26. apr. 2012.

utanríkis- og alþjóðamál.

761. mál
[14:25]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég reikna með að fá jafnlangan tíma og hv. þingmaður til að svara því sem hann beindi til mín í andsvari sínu.

Því er lýst í nefndaráliti utanríkismálanefndar hvaða viðmið eigi að hafa varðandi landbúnaðar- og matvælamál. Hv. þingmaður þarf ekki að kenna mér hvað stendur í því nefndaráliti. Ég er sammála því að fari menn út fyrir það umboð þurfi málið að koma til umfjöllunar á vettvangi Alþingis. Þess vegna hefur það vinnulag verið haft að samninganefndin kynni drög að samningsafstöðu fyrir utanríkismálanefnd og eftir atvikum öðrum fagnefndum áður en gengið er frá málum.

Ég vil líka segja, af því að hann nefndi tollamálin sérstaklega, að ég er ekki sammála þeirri túlkun hans að í nefndaráliti utanríkismálanefndar sé sú afstaða afdráttarlaus að tollvernd verði áfram við lýði í íslenskum landbúnaði. Það tel ég að sé oftúlkun á því sem stendur í nefndaráliti utanríkismálanefndar. Þar er hins vegar sagt að verði hún ekki til staðar skuli koma sambærilegar (Forseti hringir.) aðgerðir í staðinn vegna þess að við viðurkennum og vitum að hún skiptir máli fyrir íslenskan landbúnað. (Forseti hringir.) Það er verðmiði sem þarf að hafa í huga og er (Forseti hringir.) að minnsta kosti ljóst að eitthvað sambærilegt verður að koma í staðinn.

Varðandi fríhöfnina í Keflavík, herra forseti, (Forseti hringir.) veit ég ekkert um það sem hv. þingmaður var að tala um og mun kynna mér það.

(JBjarn: … utanríkisráðherra.)