140. löggjafarþing — 89. fundur,  26. apr. 2012.

utanríkis- og alþjóðamál.

761. mál
[14:28]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef í svari mínu við fyrra andsvari lýst því hver samþykkt landsfundar Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs var í aðdraganda þingkosninganna 2009. Ég get sagt það fyrir mína parta að í kosningabaráttunni fyrir kosningarnar 2009, þar sem ég kom víða að fundum, þá lýsti ég nákvæmlega þeim þremur atriðum sem ég hef þegar lýst úr samþykkt landsfundar 2009 og að ég teldi fyrir mína parta að það kæmi vel til greina að setja málið í það ferli sem síðar varð.

Síðan, eins og hv. þingmaður þekkir af því að hann var á þessum tíma þeirrar gæfu aðnjótandi að vera í þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, var kjörinn á þing fyrir þann flokk, þá varð það niðurstaða í viðræðum Samfylkingar og Vinstri grænna við myndun ríkisstjórnar að leggja tillögu um þetta fyrir Alþingi. Það var alveg ljóst af hálfu beggja flokka að engin vissa væri fyrir því fyrir fram (Forseti hringir.) hver afdrif slíkrar tillögu yrðu, eða hvort meiri hluti yrði fyrir henni. Það var því ekki mér vitanlega búið að taka neina ákvörðun um það fyrir fram að sótt (Forseti hringir.) yrði um aðild.