140. löggjafarþing — 89. fundur,  26. apr. 2012.

utanríkis- og alþjóðamál.

761. mál
[14:33]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að spyrja hv. þingmann út í það sem fram kom í ræðu hans. Til að byrja með um ummæli um aðgerðir Atlantshafsbandalagsins í Líbíu, sem hv. þingmaður sagði að væru réttilega byggðar á samþykkt Sameinuðu þjóðanna og hefðu verið ræddar á þeim vettvangi. Þess vegna taldi hv. þingmaður þær hafa átt rétt á sér ef ég skildi hann rétt.

Ég vil spyrja hv. þingmann: Hefði ekki líka þurft að ræða þessar aðgerðir í ríkisstjórn Íslands? Það hefur komið fram hér á Alþingi að svo var ekki gert. Hvað finnst hv. þingmanni um það þar sem þetta er jú ákvörðun um aðild Íslands að hernaðarátökum?

Í öðru lagi talaði hv. þingmaður um að hann væri andvígur aðild okkar að þessu ágæta bandalagi en fyrst við værum þar ættum við að beita áhrifum okkar til góðs á þeim vettvangi. Nú spyr ég: (Forseti hringir.) Þegar Vinstri hreyfingin – grænt framboð hafði tækifæri til að hafa áhrif á vettvangi Atlantshafsbandalagsins var það tækifæri ekki nýtt, hvers vegna var það?