140. löggjafarþing — 89. fundur,  26. apr. 2012.

utanríkis- og alþjóðamál.

761. mál
[14:39]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Árni Þór Sigurðsson gerði fullveldisframsal nokkuð að umtalsefni í ræðu sinni. Þar kom meðal annars fram hjá þingmanninum að nú þegar hafi töluvert fullveldisframsal átt sér stað í EES-samningnum. Það mátti skilja það sem svo að vegna þess væri ekki endilega svo mikill munur á því framsali sem þar hefði farið fram og því framsali sem fylgdi því að ganga í Evrópusambandið ef af því yrði.

Mig langar því til að spyrja hv. þingmann hvort hann sé ekki sammála því að töluvert mikill eðlismunur sé á því þegar þarf að leita til Alþingis í hvert skipti sem tilskipun kemur frá Evrópusambandinu sem felur í sér framsal á fullveldi þegar sjálfstæð ákvörðun er tekin í hvert skipti, eða eins og er um að ræða í tilviki inngöngu í Evrópusambandið að fullveldisframsalið hefur að fullu orðið.