140. löggjafarþing — 89. fundur,  26. apr. 2012.

utanríkis- og alþjóðamál.

761. mál
[14:41]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé einmitt sjálfstætt álitaefni hversu langt EES-samningurinn gengur og hefur þróast á umliðnum árum í þessa átt.

Mig langar hins vegar, af því að hér er afar skammur tími til ráðstöfunar og margoft hefur verið vísað til meirihlutaálits utanríkismálanefndar þegar kemur að aðildarviðræðum við Evrópusambandið, að segja: Nú er það svo, virðulegi forseti, að það hefur ansi mikið breyst frá sumrinu 2009 á vettvangi Evrópusambandsins og ekki síst í samskiptum okkar Íslendinga við það út af sjálfstæðum deilumálum sem hafa skapast. Við getum nefnt makríldeiluna, við getum nefnt þær deilur sem við eigum í við tiltekin aðildarríki út af Icesave-málinu. Við getum líka nefnt það umrót sem er á Evrópusvæðinu vegna evrunnar.

Af því að þetta meirihlutaálit er stöðugt í umræðunni langar mig til að spyrja hv. þingmann hvort hann telji ekki ástæðu til þess, vegna þeirra miklu breytinga sem orðið hafa og umróts, að þetta nefndarálit (Forseti hringir.) sé tekið upp og menn fari yfir það og bæti jafnvel við álitamálum sem skipta máli þegar litið er til aðildar að Evrópusambandinu.