140. löggjafarþing — 89. fundur,  26. apr. 2012.

utanríkis- og alþjóðamál.

761. mál
[14:42]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel ekki ástæðu til að taka nefndarálitið sem slíkt upp enda talar það bara fyrir sig og er skrifað á þeim tíma sem það er skrifað og við þær aðstæður sem það er skrifað.

Það er hárrétt hjá hv. þingmanni að margt hefur gerst í Evrópusambandinu en það er líka margt sem hefur gerst á Íslandi. Flestir stjórnmálaflokkar tóku afstöðu til ESB-spurningarinnar fyrir meira en áratug eða svo. Er ekki tilefni til að taka þá stefnumótun til umræðu í ljósi breyttra aðstæðna á Íslandi? (ÓN: ESB? Bara hvenær sem er.) Ég bara velti því fyrir mér. Það kann vel að vera að menn komist að sömu niðurstöðu en það eru samt breyttar aðstæður hjá okkur líka.

Svo er það auðvitað ekki þannig að þó að ESB sé að ganga í gegnum erfiðleika núna verði bara allt í einu á einhverjum tilteknum tímapunkti í framtíðinni kominn endapunktur á það og ró og friður verði á öllu í Evrópu. Efnahagsmálin, stjórnmálin í Evrópu eru auðvitað á sífelldri ferð rétt eins og hjá okkur. Mér finnst því eðlilegt að við ljúkum viðræðunum um aðildarferlið og þjóðin (Forseti hringir.) taki afstöðu til þess við þær aðstæður sem þá eru uppi. Er eitthvað betra að setja það á ís í eitt ár og byrja svo aftur? (Forseti hringir.) Halda menn að málin í Evrópu verði ekki á fleygiferð eftir eitt ár, tvö ár eða þrjú? (Forseti hringir.)

Ég tel að þjóðin verði að taka afstöðu til þessa máls þegar það er tilbúið til að setja það í þjóðaratkvæðagreiðslu og út frá þeim aðstæðum sem þá eru uppi, hverjar sem þær kunna að verða.