140. löggjafarþing — 89. fundur,  26. apr. 2012.

utanríkis- og alþjóðamál.

761. mál
[15:02]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Herra forseti. Í aðdraganda síðustu alþingiskosninga var það á stefnuskrá þriggja af fjórum flokkum að sækja um aðild að Evrópusambandinu með einum eða öðrum hætti. Sumir þeirra hafa skipt um skoðun á leiðinni en þetta er það sem þeir voru kosnir út á og að mínu viti er það einfaldlega það sem þeir eiga þá að standa við. Meira að segja Framsóknarflokkurinn, sem nú hefur snúist algjörlega gegn þessu, var kosinn út á eitthvað allt annað. (SIJ: Rangt.) Framsóknarflokkurinn hefur ekki umboð frá sínum kjósendum til að vera með þá stefnu sem hann rekur hér í þingsal varðandi Evrópusambandið, (Gripið fram í: … sækja um?) hann hefur einfaldlega ekki umboð til þess.

Hvað varðar sérhagsmuni er það augljóst að þingmenn fjölmargra flokka hér gæta sérhagsmuna en ekki almannahagsmuna. Almannahagsmunir í Evrópusambandsmálum eru fyrst og fremst þeir að almenningur fái að ráða því hvort gengið verði í Evrópusambandið eða ekki. (Gripið fram í.) Það eru ekki fulltrúar sérhagsmuna (Forseti hringir.) sem eiga að ráða þessu, heldur á almennur kjósandi að ráða því.