140. löggjafarþing — 89. fundur,  26. apr. 2012.

utanríkis- og alþjóðamál.

761. mál
[15:07]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Hvað varðar vantrauststillögu hefur Hreyfingin og þingflokkur hennar ekki tekið neina afstöðu til þess. Mig langar að vekja athygli á því að grein Morgunblaðsins í gær, forsíðufréttin, tekur miklu dýpra í árinni en tilefni var til vegna þeirra viðtala sem var átt t.d. við mig. Þar kemur hvergi fram að ég muni styðja vantrauststillögu á ríkisstjórnina. Það viðhorf mitt kemur hins vegar fram að ég telji að það eigi að reyna að vinna að framgangi lýðræðisumbóta, það eigi að vinna í skuldamálum heimilanna, að afnámi verðtryggingar og því að fiskveiðistjórnarmál fari í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Ef ríkisstjórnin sem situr ætlar ekki að sinna þeim málum sé ég persónulega enga ástæðu fyrir þá ríkisstjórn til að sitja í heilt ár í viðbót. Þetta eru atriði sem voru ákall búsáhaldabyltingarinnar á sínum tíma og fleyttu mér og fleirum inn á þing. Ég hef sjálfur heldur enga ástæðu til að sitja hér eitt ár í viðbót og standa í einhverju orðaskaki við ríkisstjórn sem ætlar ekki að taka á neinum þessara (Forseti hringir.) (Gripið fram í.) atriða.