140. löggjafarþing — 89. fundur,  26. apr. 2012.

utanríkis- og alþjóðamál.

761. mál
[15:08]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna um utanríkismál sem eru víðfeðmur málaflokkur og mikilvægur. Ég er alþjóðasinni, m.a. vegna mannréttindamála sem þingmaðurinn fór ítarlega yfir í ræðu sinni, og ESB-sinni [Hlátur í þingsal.] því að ég tel að við eigum að vera fullgildir meðlimir í friðarbandalagi í okkar álfu sem vinnur á grundvelli samstöðu og markvissra áætlana til hagsbóta fyrir íbúa álfunnar. Við eigum miklar umræður um Evrópusambandið hér á landi, m.a. í þessum sal, en við ræðum mjög sjaldan ýmsar aðrar alþjóðastofnanir sem við erum aðilar að.

Ég kem hér upp vegna orða þingmannsins um að við þurfum að ræða miklu frekar hvort við viljum vera aðilar að NATO og hvert NATO sé að fara, Atlantshafsbandalagið. Ég tek undir með þingmanninum, ég hef ekki tekið afstöðu í því máli en tel mikilvægt að sú umræða fari fram, og vildi spyrja þingmanninn: Hvernig telur hann að þeirri umræðu yrði best háttað?