140. löggjafarþing — 89. fundur,  26. apr. 2012.

utanríkis- og alþjóðamál.

761. mál
[15:10]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Ef ég man rétt er nú í gangi smíði á einhverri þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland. Ég veit ekki hvort NATO mundi passa sérstaklega þar inn í en ég tel að á vettvangi ríkisstjórnarinnar og stjórnarmeirihlutans væri ef til vill best að velta því alvarlega — ég hef ekki svör við því nákvæmlega hvernig sú umræða ætti að fara fram eða hvernig hún ætti að hefjast. Ég bendi á að við höfum farið út í umræður um ýmis mikilvæg mál og málaflokka, til dæmis var á sínum tíma ákveðið að hefja umræður um aðgang að EES-samningnum. Slík umræða hefst einhvern veginn, einhverjir telja sig knúna til að koma á koppinn og hvetja til þeirrar umræðu og umfjöllunar. Ég er að sjálfsögðu fús að taka þátt í því þó að ég hafi ekki neinar beinar hugmyndir um með hvaða hætti það ætti að vera. Mér finnst mjög nauðsynlegt að Íslendingar velti því fyrir sér, og þá ætti eðli málsins samkvæmt sú umræða að hefjast á Alþingi, hver afstaða (Forseti hringir.) okkar til NATO ætti að vera miðað við breytta heimsmynd.