140. löggjafarþing — 89. fundur,  26. apr. 2012.

utanríkis- og alþjóðamál.

761. mál
[15:12]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er risastórt mál í utanríkisráðuneytinu. Stór hluti þeirra 70 starfsmanna sem þar vinna er núna bundinn í Evrópusambandsviðræðunum og það er kannski ekki hægt að krefjast þess að þeir fari einhvern tímann á næstu vikum út í mjög viðamikla vinnu til að kanna hvort Ísland eigi betur heima utan NATO eða innan þess. Það er þó rétt að fyrir liggur frumvarp um þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildina að NATO. Auðvitað þarf rækileg og ítarleg umræða að fara fram áður en af þjóðaratkvæðagreiðslunni verður vegna þess að þjóðaratkvæðagreiðslur á Íslandi eru í mjög einkennilegum farvegi. Þær eru eiginlega til en samt ekki til og það vantar allan strúktúr í kringum umgjörð fyrir þær, eins og gert er ráð fyrir í þingsályktunartillögunni um aðildina að ESB þar sem gert er ráð fyrir stofnun lýðræðisstofu sem mundi þá stýra umræðu um slíkar atkvæðagreiðslur og taka til þess þann tíma sem þarf, eitt ár eða tvö, (Forseti hringir.) áður en slík atkvæðagreiðsla færi fram. Uppbygging slíkra innviða varðandi þjóðaratkvæðagreiðslur er nauðsynlegur hluti af öllu slíku ferli.