140. löggjafarþing — 89. fundur,  26. apr. 2012.

utanríkis- og alþjóðamál.

761. mál
[15:14]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður fullyrti að það væri heimskuleg sérhagsmunagæsla að vilja hætta umsóknarferlinu, eins og Sjálfstæðisflokkurinn hefur boðað, eða leggja það á ís eins og stefna Framsóknarflokksins er. Nú sýna skoðanakannanir að meiri hluti þjóðarinnar vill ekki aðild að ESB og nýlega hefur komið fram að umsóknarferlið mun dragast í alla vega tvo til þrjú ár. Ég vil því spyrja hv. þingmann, sem er mikill lýðræðissinni, hvort hann geti stutt tillögu um að hér fari fram þjóðaratkvæðagreiðsla um hvort halda eigi umsóknarferlinu áfram eða ekki. Með öðrum orðum mun hv. þingmaður standa gegn því að þjóðin fái að ákveða hvort það eigi að halda umsóknarferlinu áfram?