140. löggjafarþing — 89. fundur,  26. apr. 2012.

utanríkis- og alþjóðamál.

761. mál
[15:18]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (U):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að fagna þessari skýrslu. Mér finnst margt mjög gott í henni og mér finnst hún almennt lýsa talsverðum dugnaði í utanríkisþjónustunni. Ég er ánægður með mjög margt sem gerst hefur í utanríkis- og alþjóðamálum á þessu kjörtímabili. Til dæmis er það mjög mikið ánægjuefni að við höfum viðurkennt sjálfstæði Palestínu í þessum þingsal mótatkvæðalaust, ég tel það vera einn af hornsteinum utanríkisstefnunnar á kjörtímabilinu. Mér finnst það líka mikið fagnaðarefni að við skulum vinna eftir áætlun um þróunarsamvinnu Íslands sem samþykkt var hér og að við skulum halda áfram þróunaraðstoð þrátt fyrir kreppuástand hér á landi, það hefur verið rakið ágætlega í ræðum annarra í dag. Mér finnst það líka mikið ánægjuefni að gerð hafi verið metnaðarfull stefnumótun í norðurslóðamálum og möguleikar okkar þar kortlagðir.

Ég legg ríka áherslu á það, eins og margir aðrir sem hér hafa talað, að utanríkisstefna Íslendinga litist mjög af afstöðu til mannréttindamála og að við séum fánaberar í mannréttindamálum á heimsvísu. Þá vil ég minna á það í því samhengi að að minnsta kosti tvær þingsályktunartillögur liggja nú fyrir þinginu sem mér fyndist mikilvægt að taka til umfjöllunar og helst samþykkja. Það væri þá liður í mannréttindaáherslu utanríkismálastefnu Íslendinga, en þessar ályktanir fjalla meðal annars um það að biðja iðkendur Falun Gong afsökunar á framferði íslenskra stjórnvalda í þeirra garð í júní 2002. Um þessar mundir eru tíu ár liðin frá þeirri hneisu og mér fyndist það auka trúverðugleika okkar í mannréttindamálum á alþjóðavísu ef við mundum biðjast formlega afsökunar á þessu framferði. Ég tel alla vega að það sé verra fyrir okkur ef við ætlum að vera málsvarar mannréttinda á heimsvísu ef við biðjumst ekki formlega afsökunar. Eins liggur fyrir þingsályktunartillaga um að við tökum afstöðu gegn framferði Kínastjórnar gagnvart Tíbet. Ég tel að við ættum að taka þessar tvær þingsályktunartillögur hér til umfjöllunar og samþykkja þær. Það yrði til að styrkja mannréttindaþátt utanríkisstefnu okkar.

Ég er ánægður með margt í þessari skýrslu og hversu yfirgripsmikil hún er. Það sýnir í raun hve víða er borið niður í málaflokkum í utanríkismálum á kjörtímabilinu. Mér finnst skýrslan afsanna ákveðna meinloku sem oft heyrist í umræðunni, að utanríkisþjónustan sé ekki að gera neitt um þessar mundir annað en að sækja um aðild að ESB. Mér finnst það koma frekar skýrt fram í skýrslunni að það er rangt. Veröldin er ekki svo svart/hvít að við getum bara gert eitt í einu. Við erum að gera margt í einu í stjórnsýslunni og á Íslandi. Við höfum einbeitt okkur að norðurslóðum, við eigum í viðræðum við Kína, við tölum við mörg viðskiptalönd sem ekki eru innan Evrópu, á sama tíma og við erum að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Þar að auki stöndum við í mjög umfangsmiklum og erfiðum deilumálum fyrir dómstólum innan EFTA. Mér finnst utanríkisþjónustan því eiga hrós skilið og virðist hún taka vel á yfirgripsmiklum verkefnum.

Ég ætla að fjalla aðeins um stærsta þáttinn í utanríkismálum Íslendinga um þessar mundir sem eru aðildarviðræðurnar við ESB. Mér finnst menn hér í umræðunni tala frekar fjálglega um þetta og segja annaðhvort að hæstv. utanríkisráðherra sé sá eini á Íslandi sem vilji ganga inn í ESB eða að bara Samfylkingin vilji ganga inn í ESB.

Ég stóð nýverið, ásamt fjölmennum hópi fólks, að stofnun nýs stjórnmálaafls á Íslandi sem heitir Björt framtíð. Innan þeirra raða er mjög margt Evrópusinnað og alþjóðlega sinnað fólk sem ekki er í Samfylkingunni og heitir ekki heldur Össur Skarphéðinsson. Þetta fólk kemur víða að, það er óflokksbundið, það var kannski í Sjálfstæðisflokknum, Vinstri grænum, Samfylkingu eða í Framsóknarflokknum. Almennt talað finnst mér það samt svolítið skeytingarleysi gagnvart mannlífinu að vera yfirleitt að flokka fólk svona niður. Fólk á sér alls konar fortíð, alla vega get ég upplýst að í þeim flokki sem ég tilheyri, Bjartri framtíð, er urmull af Evrópusinnuðu fólki og ég er þar á meðal, ég er Evrópusinnaður. Maður verður þó auðvitað alltaf að hafa fyrirvara og taka fram að maður hafi ekki séð samninginn varðandi inngöngu okkar í Evrópusambandið. Mér finnst það vera algjört lykilatriði að við einbeitum okkur að því um þessar mundir að ná góðum samningi. Það hlýtur að vera meginverkefni utanríkisþjónustunnar og meginviðfangsefni okkar sem Íslendinga. Það er alltaf vont ef samningurinn sem við stöndum uppi með á endanum er vondur. Það væri versta niðurstaðan í þessu öllu saman fyrir Ísland ef vondur samningur yrði samþykktur. Það hlýtur að vera lögð höfuðáhersla á það frá sjónarhóli íslenskra hagsmuna að við náum góðum samningi.

Það hefur vakið athygli mína í dag að mér finnst ekki sérstaklega margir draga í efa, eins og haldið er fram í skýrslu utanríkisráðherra, að samningaviðræðurnar gangi vel. Ég hef ekki heyrt neitt styggðaryrði til dæmis gangvart viðræðunefndinni. Ég held raunar að staðreyndin sé sú að við séum í þessum viðræðum með mjög vel skipaða viðræðunefnd og samningamenn sem taldir eru vera á heimsmælikvarða. Ég vil leyfa mér að segja að það sé lykilatriði fyrir okkur sem þjóð að standa dyggilega við bakið á þeim hópi í samningaviðræðunum. Það vekur sem sagt athygli mína að mér finnst enginn halda öðru fram en að viðræðunefndin hafi haldið vel á málum og að efnislegar viðræður hafi gengið vel.

Mér finnst það merkilegt að einum áfanga var náð um daginn, búið er að loka 10 liðum af 33 og í einum var sem sagt kveðið á um það algjörlega skýrt að Ísland yrði hér eftir sem hingað til herlaust land. Af hverju finnst mér það merkilegt? Það er vegna þess að því var haldið mjög stíft fram í upphafi viðræðnanna að Íslendingar þyrftu jafnvel allir að ganga í einhvers konar evrópskan her ef við gengjum í Evrópusambandið, ég þurfti í alvöru að rökræða það við fólk. Ég sá engar forsendur fyrir því að það mundi gerast og það voru engar forsendur fyrir því. Ég held því fram að eftir því sem samningaviðræðunum vindur fram muni fleiri svona upphrópanir reynast marklausar og þegar ég segi að mikilvægt sé að klára þessar viðræður er það meðal annars vegna þess að mér finnst mjög mikilvægt að íslenska þjóðin sjái hvaða upphrópanir eru réttar og hverjar ekki.

Til dæmis höfum við nú komist að því að staðhæfingar um að Íslendingar þurfi að stofna her eða ganga í her ef við göngum í Evrópusambandið eru rangar, það er þá frá. Fleiri svona mál þurfum við að útkljá. Ég held því til dæmis fram að í sjávarútvegsmálunum verði það algjört lykilatriði að við veiðum ekki úr sameiginlegum stofni í Evrópu, við veiðum úr okkar eigin stofni. Og ég held því fram varðandi landbúnaðinn og Evrópusambandsaðild að fjölmörg tækifæri muni felast þar fyrir bændur þegar upp verður staðið, eins og raunin hefur verið í þeim ríkjum sem gengið hafa í Evrópusambandið. Til dæmis verður fólk að átta sig á að það er ekki til neitt sem heitir landbúnaðarstefna Evrópusambandsins, hún er margs konar. Þau mál eru í raun öll undir því komin hvað við viljum. Þá umræðu þurfum við að taka og við þurfum að geta staðið undir því að taka hana. Við þurfum að spyrja okkur spurninga eins og: Er æskilegt fyrir íslenskan landbúnað að búa við þríhliða vernd; fjarlægðarvernd, tollavernd og styrkjavernd? Það hefur sýnt sig til dæmis varðandi grænmetið, gúrku og tómata, að þegar tollaverndin var felld niður jókst innlend framleiðsla, hún rauk upp. Við þurfum að ræða um fjölmarga þætti af þeim toga.

Menn tala um skoðanakannanir. Ég bendi á reynslu úr Eystrasaltsríkjunum þar sem yfirgnæfandi meiri hluti var á móti í aðdraganda aðildar og meðan viðræður voru í gangi. Svo nokkrum mánuðum fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu snerust skoðanakannanir algjörlega við og að lokum var skýr meiri hluti hlynntur aðild. Hvað gerðist í millitíðinni? Jú, samningurinn kom fram. Hann er þrátt fyrir allt stóra stærðin sem við þurfum að fá upp á borðið til að móta afstöðu okkar til þessa máls. Þegar samningurinn er kominn fram breytir hann öllu, allt annað eru spekúlasjónir. Það verðum við að hafa í huga.

Annað mál sem mér finnst gríðarlega mikilvægt að við fáum upp á borðið með samningi varðar gjaldeyrismálin. Sú umræða er mjög spekúlatíf hér á landi. Ég skil ekki af hverju við könnum ekki til hlítar þá augljósu leið sem Framsóknarflokkurinn vildi kanna þegar hann fór í kosningar 2009, þ.e. aðild að evru og ERM II, fram að evru. Ég held að Íslendingar þurfi að vita hvað felst í þeirri leið. Sú leið felur það í sér að jafnvel bara nokkrum mánuðum eftir að aðild yrði samþykkt gætum við hafið gjaldmiðilssamstarf við Evrópu í gegnum ERM II. Það felur í sér að Seðlabanki Evrópu kemur á stöðugleika íslensks gengis með ákveðnum vikmörkum, sem mundi þýða stórbrotin umskipti fyrir íslensk heimili og fyrirtæki. Það sem gerir þessa leið öðruvísi en til dæmis einhliða upptöku annarrar myntar er að við verðum aðilar að Evrópska seðlabankanum, við erum aðilar að honum. Því þurfa allir að velta fyrir sér og vega og meta.

Einhliða upptaka annarrar myntar felur ekki í sér slíka aðild að öðrum seðlabanka og ég velti því stundum fyrir mér þegar menn spila út ákveðnu þjóðernisspili í þessari umræðu allri saman: Væri ekki miklu ríkara tilefni til að hafa áhyggjur af fullveldi og sjálfstæði Íslendinga ef við tækjum einhliða upp gjaldeyris- og efnahagsstefnu annars ríkis án aðildar að seðlabanka þess ríkis en nokkurn tíma þeirri hættu sem steðjaði að fullveldinu ef við gerðumst aðilar að Evrópska seðlabankanum og tækjum upp með samningum þá mynt, evruna, sem er notuð í Evrópu? Ég held að þetta sé augljósasta leiðin og sú sigurstranglegasta til að leysa það gríðarlega vandamál sem við stöndum frammi fyrir varðandi gjaldmiðil Íslendinga. Það hefur reynst Íslendingum gríðarlegt vandamál allan lýðveldistímann og lengur að koma á stöðugleika í íslensku hagkerfi.

Nú kem ég að lokaorðunum í ræðu minni hér. Mér virðist sem þingheimur skipti sér í tvær fylkingar: Önnur fylkingin virðist aðhyllast það viðhorf til Evrópu að þar séu 27 þjóðir sem séu í einhvers konar samtökum um samsæri gegn Íslendingum (Gripið fram í.) og að Evrópuríkin séu óvinir okkar þrátt fyrir að við eigum í ríkum samskiptum við þessar þjóðir. Á hinum vængnum er fólk eins og ég sem viðurkennir og telur það eftirsóknarvert að taka þátt í samvinnu þessara þjóða. (SII: Heyr, heyr.) Mér sýnist að flest stærstu verkefni íslensks þjóðarbús og íslenskrar þjóðar (Forseti hringir.) gætu þannig verið leyst farsællega, auðvitað ekki með neinni töfralausn heldur með klassískri samvinnu sjálfstæðra ríkja og fullvalda þjóða innan Evrópu.