140. löggjafarþing — 89. fundur,  26. apr. 2012.

utanríkis- og alþjóðamál.

761. mál
[15:34]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa ræðu, það fer ekki á milli mála hvar hjarta hans slær í þessu efni.

Tvennt sem kom fram í máli hv. þingmanns á ekki við rök að styðjast. Í fyrsta lagi að einhver þjóðernisstimpill sé á því að menn vilji ekki skoða Evrópusambandsaðild. Ég kom hér í andsvar áðan við hæstv. utanríkisráðherra og fjallaði um fríverslunarsamning við Kína og stóra fjárfestingu sem var að koma þaðan. Í annan stað kom hv. þingmaður inn á einhliða upptöku annarra gjaldmiðla. Þannig vill til að Framsóknarflokkurinn hefur skoðað upptöku á kanadadollar og norskri krónu og vill skoða það en í báðum tilfellum hefur verið um tvíhliða upptöku að ræða og pólitískur vilji af hálfu þessara ríkja.

Af því að hv. þingmaður talaði um Evrópska seðlabankann, hve gott væri að verða aðili að honum, langar mig að spyrja hv. þingmann að því hvað honum finnist um það að þau ríki sem eigi aðild að Evrópska seðlabankanum þurfi að greiða tugi og jafnvel hundruð milljarða í björgunarsjóð til handa evrópskum bönkum. Hefur hv. þingmaður skoðað hve háar fjárhæðir Íslendingar mundu þurfa að greiða inn í þessa björgunarsjóði ef þeir verði aðilar? Ef svo er mundi ég vilja fá hv. þingmann til að upplýsa það hér hver sú upphæð væri.

Hv. þingmaður fór mjög jákvæðum orðum um þessa stefnu og um þessa skýrslu og stefnu ríkisstjórnarinnar í utanríkismálum. Er eitthvað í skýrslu hæstv. utanríkisráðherra og í utanríkisstefnunni sem hv. þingmaður er beinlínis ósammála? Ég gat ekki skynjað á máli hans annað en það að hann væri í megindráttum sammála utanríkisstefnunni í heild sinni og mig langaði bara að fá að vita hvort hv. þingmaður væri ósáttur (Utanrrh.: Það var Sigmundur líka.) eða ósammála einhverju í utanríkisstefnu Íslands.