140. löggjafarþing — 89. fundur,  26. apr. 2012.

utanríkis- og alþjóðamál.

761. mál
[15:41]
Horfa

Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður kom inn á íslenskan landbúnað í ræðu sinni þegar hann fjallaði um aðild að Evrópusambandinu. Mig langar aðeins til að rökræða það við hv. þingmann. Hann fór yfir það að þrenns konar vernd væri á íslenskum landbúnaði, það væri fjarlægðarvernd, tollvernd og svo styrkir íslenska ríkisins.

Allt er þetta nú satt og rétt en mig langaði aðeins til að rökræða þetta við hann. Hann talaði um grænmeti. Þegar leyfður var innflutningur á grænmeti þá þurrkaðist paprikurækt til dæmis algjörlega út á Íslandi. Menn fóru meira í þessa lýsingu, þetta varð til ákveðinnar hagræðingar og varð heilmikil strúktúrbreyting í þeirri grein — væri ánægjulegt ef íslenskir garðyrkjubændur fengju nú rafmagnið á sama verði og álverin í alla þessa lýsingu. En varðandi þessa tollvernd og þessa ríkisstyrki velti ég fyrir mér: Hefur hv. þingmaður velt því fyrir sér að á Íslandi fara á milli 1,5 og 2% af ríkisútgjöldum í styrki til landbúnaðar? Um 40% af heildarútgjöldum Evrópusambandsins fara í landbúnað og við gerum okkur grein fyrir því að við þurfum að borga eitthvað með okkur þangað inn. Megum við ekki líta á það sem svo að það fari jafnvel bara meiri peningur í landbúnað með þessum hætti en annars?

Það má kannski líka velta því fyrir sér af hverju ekki má styrkja landbúnað á Íslandi eins og gert er í öðrum ríkjum. Hefur hv. þingmaður velt því fyrir sér að kannski sé þjóðhagslega hagkvæmt að styrkja landbúnað til að hafa matvörurnar ódýrari og gera fólki kleift að kaupa þær, fólki sem er kannski ekkert með mjög há laun, að þetta sé kannski hagstjórnartæki í sumum tilfellum?