140. löggjafarþing — 89. fundur,  26. apr. 2012.

utanríkis- og alþjóðamál.

761. mál
[15:49]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (U) (andsvar):

Frú forseti. (SIJ: Bjartrar framtíðar.) Stórt er spurt, en ég get alveg tekið undir með hv. þingmanni. Þetta er tortryggileg umræða.

Um hvað snýst málið? Við erum í samningaviðræðum. Þar mun spurningum verða svarað. Við erum fyrst og fremst að afla upplýsinga. Það sem hefur gerst í mörgum ríkjum, ég rakti dæmi frá Eystrasaltsríkjunum þar sem aðildarviðræður voru mjög óvinsælar og menn höfðu ýmislegt um samninginn að segja, alls konar fullyrðingar voru á lofti, flestir voru á móti, en svo kom samningur og þá breyttust allt í einu viðhorfin. Þá var spurningunum svarað.

Ég tel algjört lykilatriði að þetta ferli fari fram. Síðan er líka lykilatriði hjá mér og fullnægir lýðræðisþörf minni í málinu að þjóðin mun á endanum greiða atkvæði með allar upplýsingar fyrirliggjandi um það hvort hún vilji fara inn eða ekki. Það er sú atkvæðagreiðsla sem skiptir öllu máli í þessu.

Ég rakti líka í ræðu minni áðan að mér fyndist undarlegt að þeir sem væru einna mest á móti þessum aðildarviðræðum töluðu ekkert endilega mikið um að þær gengju illa. Þær eru ekkert mikið efnislega gagnrýndar, finnst mér. Stundum hvarflar að manni hvort þeim hinum sömu finnist það kannski vera slæmt hversu vel þær ganga og að spurningum muni verða svarað og ekki endilega á þann veg sem umræddir einstaklingar eru búnir að boða.