140. löggjafarþing — 89. fundur,  26. apr. 2012.

utanríkis- og alþjóðamál.

761. mál
[16:16]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er engin ástæða fyrir Ísland til að einangra sig. Auðvitað eigum við að eiga viðskipti við fjölmargar þjóðir og ríkjasambönd og gæta þess að við eigum bandamenn í fleiri stöðum en færri. Þess vegna nefndi ég til að mynda að við ættum að rækta samskipti okkar við Kanada og Rússland. Ég get tekið undir að það má rækta viðskiptasambönd okkar við Kína. Þar geta verið ýmis tækifæri og fjárfestingar sannarlega komið af þeirra hálfu. 60% vöxtur í útflutningsviðskiptum þangað er auðvitað fagnaðarefni, en það eru hverfandi stærðir þegar við horfum (ÁsmD: 127 milljarða fjárfesting.) á meginviðskiptalönd okkar, löndin í Evrópu. Það er ekkert í þeim viðskiptum sem mun koma í staðinn fyrir þá markaði sem við höfum með helstu afurðir okkar í Englandi, Þýskalandi og fleiri löndum Evrópu. Þess vegna hljótum við til lengri tíma að leita eftir því að hafa sömu mynt, sambærilega vexti sem eru sannarlega miklu lægri, bæði fyrir heimili og fyrirtæki, sambærilegan stöðugleika, (ÁsmD: En í Grikklandi?) aðild að stjórnsýslu, stjórnkerfi, eftirlitsstofnunum og stjórnmálasamstarfi á því svæði þar sem meginþunginn í viðskiptum okkar liggur.

Sem lítið dæmi um það hvaða vandkvæði fylgja þeirri stöðu sem við erum í í dag vorum við í utanríkismálanefnd í morgun að fjalla um eðlilega eftirlitsstarfsemi á fjármálamörkuðum í Evrópu sem getur komið í veg fyrir vandamál í því þegar menn stunda bankaviðskipti yfir landamæri, vandamál sem við þekkjum eins og til að mynda í Icesave. Það veitir slíkum eftirlitsaðila svigrúm og tækifæri til að grípa inn í áður en upp rísa vandamál eins og þar urðu. Þar sem við erum ekki með fulla aðild að sambandinu getum við út frá stjórnskipunarlegri stöðu okkar illa tekið þátt í jafnmikilvægu samstarfi (Forseti hringir.) og þar er á ferðinni.