140. löggjafarþing — 89. fundur,  26. apr. 2012.

utanríkis- og alþjóðamál.

761. mál
[16:19]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja eins og margir hér og þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir þessa skýrslu. Hún er ágæt, hún er yfirgripsmikil, en ég vil ítreka þær athugasemdir sem komu fram fyrr í dag um sérstaka Evrópusambandsumræðu vegna þess að, eins og við höfum orðið vitni að í dag, er þessi umræða lituð af því að tappa þarf af Evrópusambandsferlinu, fyrir það líða önnur utanríkismál. Ég hef reynt í andsvörum, bæði við hæstv. ráðherra og formann utanríkismálanefndar, að ræða um önnur mál en Evrópusambandið, en nú er mér orðið dálítið mál að ræða Evrópusambandið. Ég ætla að beina máli mínu að hæstv. utanríkisráðherra og bið hann um að taka niður þær spurningar sem ég ber fram og vænti þess að annaðhvort seinna í umræðunni eða í andsvörum geti hann svarað mér.

Mig langar að vinda mér beint í þetta. Aðeins um samningaviðræðurnar sjálfar. Í formála skýrslunnar, sem hv. þm. Árni Þór Sigurðsson benti réttilega á að væri líklega skrifaður af hæstv. utanríkisráðherra sjálfum, segir á bls. 7, með leyfi forseta:

„Erfiðar lotur eru fram undan, ekki síst þegar samningar hefjast um sjávarútvegsmálin. Vitaskuld munu rísa öldur fyrir stafni. Þá er að kljúfa þær með sömu elju og æðruleysi og hefur einkennt vinnu okkar fólks til þessa. Ég hef lært að virða það fyrir einstaka samningatækni og úthald.“

Í ljósi þess að engir eiginlegir samningar eru hafnir um nein stór íslensk hagsmunamál í aðildarviðræðunum og erfiðu loturnar eru ekki að baki heldur fram undan, eins og segir í skýrslu utanríkisráðherra, þá vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Hvar hefur reynt á einstaka samningatækni og úthald okkar fólks? Hafa átt sér stað erfiðar samningaviðræður við ESB um aðild Íslands sem Alþingi er ekki kunnugt um?

Í framhaldinu af þessu segir, með leyfi forseta:

„Miklir hagsmunir eru í húfi fyrir Ísland. Þeir sem hafa réttlætið sín megin sigra alltaf að lokum, en þurfa þá að vísu að vera væddir úthaldi, góðum skammti af þolgæði og helst þokkalegu taugakerfi.“

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvað hann eigi við með réttlæti í þessari setningu. Eru hagsmunir Íslands gagnvart Evrópusambandinu réttlætið í þessu? Eða er réttlætið sjónarmið þeirra sem vilja ganga í ESB? Við hvað á hæstv. ráðherra með réttlæti?

Þetta var um samningaviðræðurnar sjálfar. Ég ætla að víkja að hinu margumrædda skjóli í gjaldmiðilsmálum og afnámi gjaldeyrishafta.

Á bls. 8 í skýrslunni segir, með leyfi forseta:

„Staðreyndin er hins vegar sú, að fáum mánuðum eftir formlega aðild getur Ísland komið krónunni í skjól fram að upptöku evrunnar, með því að taka þátt í gjaldmiðilssamstarfinu ERM II með stuðningi Seðlabanka Evrópu. Um þetta þarf hins vegar að semja …“

Ég spyr hæstv. utanríkisráðherra: Er ráðherra með þessu að segja að í aðildarsamningi í pakkanum yrði ekkert um hið margumtalaða skjól að ræða fyrir krónuna, um það þyrfti að semja einhverjum mánuðum eftir formlega aðild? Þannig skil ég þá tilvitnun sem ég las. Er það réttur skilningur? Ef ekki, hver er þá hinn rétti skilningur?

Tengt þessu segir á bls. 20 í skýrslunni:

„Með upptöku nýrrar myntar verða gjaldeyrishöft úr sögunni og raunar fyrr, því afnám gjaldeyrishafta er eitt af skilyrðum aðildar Íslands að Evrópusambandinu.“

Ég spyr hvað þetta þýði fyrir hið margumrædda skjól. Ef Ísland verður að afnema gjaldeyrishöftin áður en til aðildar kemur, fengi krónan væntanlega ekkert skjól á meðan þau eru afnumin. Væntanlega, því að á bls. 8 sem ég var að lesa áðan segir skýrt að það yrði ekki fyrr en fáum mánuðum eftir formlega aðild að skjólið fengist. Ég legg mikla áherslu á að utanríkisráðherra svari þessari spurningu mjög skýrt. Þetta er stórt mál. Þetta er ákveðin þversögn og rímar kannski ekki alveg við það sem kom fram í ræðu hæstv. utanríkisráðherra fyrr í umræðunni og haft er einnig eftir honum á vef Ríkisútvarpsins, en hæstv. utanríkisráðherra sagði, með leyfi forseta:

„Eitt mikilvægasta viðfangsefni samninganna verður að ná samningi við Evrópu um afnám gjaldeyrishaftanna og bræða snjóhengjuna“, o.s.frv.

Þetta kom fram í andsvari við hv. þm. Lilju Mósesdóttur. Þarna erum við farin að semja við Evrópusambandið um afnám gjaldeyrishaftanna, en í skýrslunni er talað um að skilyrði þess að við getum gengið í Evrópusambandið sé að við verðum sjálf búin að afnema gjaldeyrishöftin. Þetta finnst mér að þurfi að skýra vegna þess að orðalagið er ekki skýrt.

Ég ætla að vinda mér í sjávarútvegskaflann og Evrópusambandið. Sagt er á bls. 24 í skýrslunni, í kaflanum um sjávarútvegsmálin, að stefnt sé að því að ljúka gerð samningsafstöðu í sjávarútvegskaflanum fyrir sumarfrí. Ég spyr hæstv. ráðherra: Hverra sumarfrí er átt við? Ég gef mér reyndar að átt sé við sumarfrí Alþingis vegna þess að Alþingi á jú síðasta orðið um samningsafstöðu í einstökum köflum, enda kemur umboðið frá Alþingi eins og margrætt hefur verið, ekki síst hér í dag. Þó ég gefi mér þetta skiljanlega, vil ég engu að síður að hæstv. ráðherra útskýri fyrir mér við hvað er átt með orðunum „fyrir sumarfrí“, því orðalagið í skýrslunni er ekki skýrt.

Einnig vil ég spyrja um annað á þessari sömu blaðsíðu, bls. 24. Þar er talað um að rædd hafi verið frumdrög þess hluta samningsafstöðu Íslands sem fjallar um ákveðnar staðreyndir í íslenskum sjávarútvegi, svo sem þjóðhagslegt mikilvægi og fleira, í samningahópi um sjávarútvegsmál. Síðan er sagt, eins og ég vitnaði til áðan, að ljúka eigi gerð samningsafstöðu fyrir sumarfrí.

Ég spyr: Af hverju er ekki búið að kynna þessi frumdrög fyrir Alþingi og utanríkismálanefnd?

Þá kem ég að því sem við höfum rætt á vettvangi utanríkismálanefndar, en það er samráðið. Í meirihlutaálitinu um tillögu til þingsályktunar um aðildarumsókn að Evrópusambandinu segir á bls. 11, sem ég hef lesið og ítrekað á mörgum fundum í nefndinni, með leyfi forseta:

„Meiri hlutinn leggur ríka áherslu á að Alþingi komi með sem beinustum hætti að ferlinu á öllum stigum þess. Tryggja verður að þingið standi ekki frammi fyrir orðnum hlut heldur sé virkur þátttakandi og eftirlitsaðili frá upphafi og í ferlinu öllu. Í því efni verður að taka tillit til þess að á endanum verður það hlutverk Alþingis að fjalla um þann samning sem kann að verða gerður …“

Að þingið standi ekki frammi fyrir orðnum hlut. Nú liggur fyrir í skýrslu hæstv. ráðherra að til eru frumdrög að samningsafstöðu. Ég óska eftir því að þau verði kynnt utanríkismálanefnd.

Ég vil víkja aðeins að kaflanum um öryggis- og varnarmál í skýrslunni. Á bls. 20 segir, með leyfi forseta:

„Þá urðu einnig þau tíðindi í utanríkis-, öryggis- og varnarmálunum að samþykkt var sameiginleg yfirlýsing Íslands og Evrópusambandsríkjanna þar sem herleysi Íslands er áréttað.“

Það segir hér:

„Þessi yfirlýsing verður hluti af aðildarsamningi Íslands. Yfirlýsingin er mikilvæg í því ljósi að hún sýnir svigrúm í aðildarferlinu til að fá sérstöðu Íslands viðurkennda.“

Það er mikið gert úr þessu og hefur verið veifað áður. En herleysi Íslands var viðurkennt 1949 þegar Ísland gekk í Atlantshafsbandalagið. Á bls. 32 segir varðandi samningaviðræður um 31. kafla um utanríkis-, öryggis- og varnarmál:

„Samningaviðræður um 31. kafla hófust á ríkjaráðstefnu Íslands og Evrópusambandsins 30. mars sl. og lauk þeim samdægurs. Endurspeglar það í raun hve mikla samleið Ísland á nú þegar með aðildarríkjum ESB í utanríkis-, öryggis- og varnarmálum. Þar skiptir m.a. máli aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu, en 21 af 27 ríkjum ESB eru einnig bandamenn Íslands á vettvangi NATO.“

Án þess að ég geri lítið úr því að þessi kafli hafi verið opnaður og honum lokað samdægurs verð ég að varpa þeirri spurningu til hæstv. ráðherra: Hvað hefði ESB átt að gera? Hefðu þeir átt að neita okkur um aðild vegna þess að við erum herlaus? Hefðu þeir átt að knýja okkur til þess að stofna eigin her? Auðvitað ekki. Það er fjarstæðukennt. Þess vegna finnst mér aðeins of vel í lagt að halda þessu á lofti sem einhver stórsigur væri í samningatækni.

Við ræddum í andsvari fyrr í dag um öryggis- og varnarmál almennt og verkaskiptinguna milli innanríkis- og utanríkisráðuneytis. Ég ítreka spurningu mína sem ég fékk ekki svar við þá, af hverju þetta sé enn þá tímabundið og hvenær standi til að breyta samningnum á milli ráðuneytanna um þessi mál í formlegt samstarf. Ég mundi gjarnan vilja fá svör við því.

Ég vil að lokum ræða aðeins um það sem við ræddum á fundi utanríkismálanefndar í morgun, sem eru IPA-styrkirnir. Ég verð að lýsa aftur vonbrigðum mínum með þann fund og framkvæmdina og afgreiðslu málsins út úr nefndinni. Við vissum að þessi umræða hér lá fyrir. Við vissum að það er fundur í nefndinni á morgun. Við vissum það líka að nefndin var ekki fullskipuð á fyrsta korterinu á fundi hennar. Hv. formaður nefndarinnar hefði mátt vita að von væri á fleirum þar sem menn höfðu ekki boðað forföll. Þá hlýt ég að spyrja hæstv. ráðherra hvort það hafi verið pressa frá honum sem varð til þess að afgreiða þurfti þetta í morgun, og eigi síðar en á fyrsta korterinu, vegna þess að þetta er ótrúlega klúðursleg afgreiðsla, svo ekki sé meira sagt.

Aðeins um þessa styrki alla saman. Rætt er í skýrslunni um IPA-styrkina og verkefni þar sem sótt hefur verið um þá og þeir fengist, væntanlega með þeim fyrirvara um samþykki Alþingis. Þegar maður lítur yfir verkefnin veltir maður fyrir sér hvað þetta komi allt saman aðildinni við. Jú, maður skilur að Hagstofan þurfi að aðlaga sig, en við ræddum á opnum fundi utanríkismálanefndar fyrr í vor um starf sem var auglýst hjá ríkisskattstjóra þar sem sagt var beint í auglýsingunni að verksvið viðkomandi starfsmanns væri að aðlaga tölvukerfi að Evrópusambandinu. Hæstv. utanríkisráðherra þekkti ekki þá það einstaka dæmi og hlýt ég að spyrja hvort hann sé búinn að leita sér upplýsinga um það og hvort veitt hafi verið heimild einhvers staðar í fjárlögum. Hefur Alþingi einhvern tímann veitt heimild fyrir fjárheimildum til stofnana til að sinna aðlögunarverkefnum? Þvert á móti hefur mikið verið rætt um að slík verkefni séu ekki í gangi.

Ég held hér áfram með listann minn. Á bls. 29–30 er kafli sem heitir „Framlagsmál“. Þar er rætt hver ballansinn yrði, ef ég má sletta aðeins, á milli Íslands og Evróupsambandsins, hvort við mundum greiða meira til sambandsins en við fengjum frá því. Ég tek eftir því þar sem þetta er rætt fram og til baka að EES-samningurinn er nefndur, og segir á bls. 30, með leyfi forseta:

„… gert ráð fyrir því að framlög Íslands yrðu á svipuðu róli og framlög Finna.“

Sagt er að greiðslurnar við aðild yrðu rúmlega 3 milljarðar og framlög Íslands yrðu á svipuðu róli og framlög Finna, en ég tek eftir að engin tala er nefnd þar. Ég mundi óska eftir því að það yrði upplýst hvert framlag Finna er þannig að maður gæti reynt að átta sig á því hvort við kæmum út í plús eða mínus.

Ég er ekki búin með þessa (Forseti hringir.) spurningalotu mína, þannig að ég mun halda áfram í síðari ræðu minni.