140. löggjafarþing — 89. fundur,  26. apr. 2012.

utanríkis- og alþjóðamál.

761. mál
[16:34]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ráðherra pressaði ekki á að IPA-málið yrði afgreitt út á neinum tilteknum tíma.

Í öðru lagi að því er varðar 31. kafla þá er sérstakt að það tókst að ná þessari niðurstöðu í ljósi þess að skoðanasystkin hv. fyrirspyrjanda hafa haldið því fram að aðild að ESB fæli í sér innleiðingu herskyldu. Það var meðal annars auglýst hér af samtökum — og þær auglýsingar, eins og annar hv. þingmaður sem situr hér í salnum veit örugglega, voru styrktar af Bændasamtökum Íslands.

Sumarfrí — það er bara hefðbundinn skilningur sem ber að leggja í það, það er júlí/ágúst, sem sagt að vera tilbúið fyrir júlí/ágúst.

Að því er varðar gjaldeyrismálin las hv. þingmaður upp texta sem hafður var eftir mér væntanlega í dag á einhverjum miðli. Því ætla ég að lesa upp fyrir hana úr ræðu minni það sem ég sagði, því að aldrei þessu vant hafði ég hana skrifaða. (Gripið fram í.) Með leyfi forseta, alla vega var meining mín sú sem ég fór með í ræðunni svona:

„Eitt mikilvægasta viðfangsefni samninganna verður að ná samstarfi við Evrópu um afnám gjaldeyrishaftanna, og bræða snjóhengjuna …“

Hugsanlega urðu mér á mistök í andsvarinu og hafði ekki nákvæmlega það sama orðalag og ég hafði í ræðu minni, en það er stór meiningarmunur á annars vegar ræðunni og því sem ég kann þá að hafa sagt í andsvarinu. Biðst ég forláts á því.

Varðandi þau frumdrög sem eru að samningsafstöðu var því lýst mjög nákvæmlega á gestafundi utanríkismálanefndar hvernig vinnubrögðum yrði háttað og hvernig vinnunni væri komið, m.a. tvískiptingu álitsins og lokið væri við fyrri partinn þar sem farið væri yfir sérstöðu Íslands og skýrt með hvaða hætti hún væri grunnur að samningsafstöðunni sjálfri.

Hins vegar (Forseti hringir.) vil ég segja það við hv. þingmann að í henni mun ekkert annað koma fram en (Forseti hringir.) bara það sem er að sjá með mjög skýrum hætti í nefndaráliti meiri hlutans.

(Forseti (SIJ): Forseti vill beina því til hæstv. ráðherra að ávarpa forseta á tilhlýðilegan hátt. Hér situr herra en ekki frú.)