140. löggjafarþing — 89. fundur,  26. apr. 2012.

utanríkis- og alþjóðamál.

761. mál
[16:37]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin sem voru — og má ég hrósa honum fyrir það — óvenju skýr að þessu sinni, það var kannski af því spurningarnar voru ef til vill í skýrari kantinum líka. Við þurfum að taka upp þetta verklag.

Varðandi meiningarmuninn á því sem hæstv. ráðherra las upp og það sem haft var eftir honum á vef Ríkisútvarpsins, þá er það gríðarlegur meiningarmunur. Þess vegna tók ég það upp hér. Ég legg til að hæstv. ráðherra kíki á ruv.is og fari fram á leiðréttingu, en ég verð að hryggja hann með því að ég held að þetta sé rétt eftir honum haft í þessu ágæta andsvari. (Utanrrh.: Ég sagði hins vegar að mér kynni að hafa orðið á.) Nákvæmlega. Þannig að sú afsökunarbeiðni er tekin til greina.

Varðandi rýniskýrslu Evrópusambandsins, ég ætla að fá að bæta við einni spurningu hér í púkkið. Á umræddum gestafundi sem hæstv. ráðherra vísar væntanlega til með nefndinni fyrir nokkru upplýsti ráðherra og starfsmenn hans að rýniskýrslan væri farin út til aðildarríkjanna til umfjöllunar eða nefnd aðildarríkjanna sem er, eftir því sem mér skilst, í Brussel. Hvar er þetta statt núna? Á hverju strandar með rýniskýrsluna? Af hverju er hún ekki komin? Vegna þess að sá fundur sem við erum að vísa til var örugglega fyrir um mánuði síðan eða meira og það bólar ekkert á þessu.

Frumdrögin — ég hefði samt sem áður gaman af því að fá að lesa þau á þessu stigi og ítreka ég þá ósk mína. En þá kemur líka að því sem ég sagði með samráðið. Mér hefur fundist í öllu þessu ferli, og það hefur verið ákveðin „frústrasjón“ í nefndinni, að við séum ekki að uppfylla þetta ákvæði í meirihlutaálitinu, biblíunni, um að samráð skuli vera — ekki þegar við stöndum frammi fyrir orðnum hlut, heldur sé um raunverulegt samráð að ræða. Mér finnst ég sem nefndarmaður í utanríkismálanefnd ekki hafa tíma eða tækifæri til þess að (Forseti hringir.) sinna mínum skyldum vegna þess að ég er bundin trúnaði, þetta er allt í einhverjum spreng vegna næsta ríkisstjórnarfundar eða einhvers slíks. (Forseti hringir.) Ég hef óskað eftir að bætt verði úr þessu, ekki síst núna þegar við erum að komast í erfiðu kaflana, eins og kallað er.