140. löggjafarþing — 89. fundur,  26. apr. 2012.

utanríkis- og alþjóðamál.

761. mál
[16:39]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef reynt að leggja mig fram um að hafa allt þetta ferli sem opnast. Ég bendi sérstaklega á að ég held að það sé einsdæmi í sögu stækkunar Evrópusambandsins að öll gögn máls meira og minna sem fram koma séu lögð jafnóðum fram á netið. Á sínum tíma ræddum við það hér í ræðustól Alþingis með hvað hætti ætti að gera það. Ég sagði þá að ég teldi að leggja ætti öll gögn á netið nema þau sem samninganefndin teldi á þeirri stundu að kynnu að skaða samningshagsmunina, þ.e. að gera það með svo opnum hætti. Ég fer bara eftir því. Ég get ekki leyst til utanríkismálanefndar gögn sem eru ekki fullbúin af hálfu samningahópsins. Ég get hins vegar fullvissað hv. þingmann um það að í sama bili og málið er komið á þann punkt að ég teldi það eðlilegt verður það gert. Ég hef fengið lýsingu á álitinu og ég fór nokkuð sannferðuglega með þá lýsingu eins og hún var mér gefin þegar ég mætti á fund nefndarinnar, ég held raunar tveimur sinnum.

Hv. þingmaður spurði mig síðar um hvar rýniskýrsla sambandsins sé stödd og hvað dvelji orminn langa. Samkvæmt mínum upplýsingum er hún komin til aðildarlandanna, hún er komin í hinn svokallaða COELA-hóp, eða er a.m.k. á leiðinni þangað, fer síðan höndum um hana. Ég reyndi í máli mínu í morgun að skýra það hverjar kynnu að vera helstu ástæðurnar fyrir því að orminn langa dvelur. Það var þá aðallega tvennt. Það var í fyrsta lagi endurskoðun á fiskveiðistefnu eins og fleiri þingmenn hafa fjallað um hér í dag. ESB hefur ekki lokið henni. Hún hefur tafist um ár. Ég hef heldur ekkert dregið dul á að það getur vel verið að makríll sé farinn að spila þarna inn í með einhverjum hætti.