140. löggjafarþing — 89. fundur,  26. apr. 2012.

utanríkis- og alþjóðamál.

761. mál
[16:59]
Horfa

Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þetta andsvar. Það er nú svo að ég spurðist fyrir um samningsafstöðuna varðandi kafla 30 í dag og mér skilst að hún hafi ekki verið kynnt í utanríkismálanefnd enn. Sé það rétt sem fram kom hjá hv. þingmanni að þar séu ekki gerðar kröfur og ekki farið fram á undanþágur varðandi þetta, þá tel ég mjög mikilvægt að það verði gert. Ég vil hvetja hv. þingmenn sem sitja í hv. utanríkismálanefnd að standa í lappirnar hvað það varðar. Það er mjög mikilvægt og það er ekki bara kaflinn um landbúnaðarmál sem þetta varðar, heldur verða menn að taka afstöðu til þessara mála í kaflanum um utanríkisviðskipti, kafla 30. Það er mjög mikilvægt að það sé gert.

Mér hefur borist til eyrna að uppi séu ýmsar hugmyndir um að fá einhverjar sérundanþágur varðandi tolla á aðföngum til álframleiðslu. Það væri fróðlegt ef hæstv. ráðherra gæti sagt okkur hvort það sé rétt. Sé það rétt, sem mér finnst bara mjög skynsamlegt að gera, hlýtur að vera komið fordæmi fyrir því að skoða mjög vel hvort ekki sé möguleiki á að sækja um undanþágur varðandi tolla á íslenskum landbúnaðarvörum.