140. löggjafarþing — 89. fundur,  26. apr. 2012.

utanríkis- og alþjóðamál.

761. mál
[17:02]
Horfa

Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég get alveg tekið undir með hv. þingmanni að það er mjög mikilvægt að við leggjumst ekki flatir. Það er mjög mikilvægt. Manni hefur stundum fundist í þessum viðræðum að menn ætli að leggjast flatir og jafnvel kyssa vöndinn. Það er alveg ljóst af nýjustu fréttum um þetta ágæta Evrópusamband sem menn ætla að fara að ganga inn í að það ætlar að fara að beita okkur refsiaðgerðum út af makrílveiðunum og er einnig að fara í mál við okkur út af Icesave-samningnum eins og þekkt er. Þannig að ég tek undir með hv. þingmanni að það sé mjög mikilvægt að standa í lappirnar í þessu.

Ég hef velt fyrir mér hver afstaða núverandi hæstv. landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra er varðandi varnarlínurnar. Það er alveg rétt að sú varnarlína sem kveður á um að heimilt verði að leggja hér á tolla áfram er af mörgum sögð óraunhæf. Menn segja að Evrópusambandið sé tollabandalag og það sé frjálst flæði á vörum innan þess og því óraunhæft að fara fram á það og jafnvel móðgandi að fara fram með þá samningsafstöðu að menn vilji sérlausnir fyrir íslenskan landbúnað. Það er mjög mikilvægt að standa í lappirnar hvað það varðar að verja íslenskan landbúnað, eins og kemur fram í nefndaráliti meiri hluta utanríkismálanefndar, eða ætla menn að gefa strax eftir?