140. löggjafarþing — 89. fundur,  26. apr. 2012.

utanríkis- og alþjóðamál.

761. mál
[17:03]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður spyr hvar vinna við gerð samningsafstöðu standi núna. Því er til að svara að núna stendur yfir af fullum krafti í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, líka með aðstoð sérfræðinga úr mínu ráðuneyti, gerð svokallaðrar aðgerðaáætlunar sem er svar okkar við opnunarviðmiði sem við þurfum að mæta til að geta hafið samninga í kaflanum. Krafturinn hefur að undanförnu farið í að vinna þessa áætlun en þegar sér fyrir endann á henni munu menn taka til óspilltra málanna við það að skrifa samningsafstöðu.

Um tollverndina sem hv. þingmaður gerir eðlilega að umræðuefni hérna, miðað við uppruna hans, gat hann þess í sömu setningunni að hann liti svo á að Evrópusambandið væri öðrum þræði tollabandalag. Ég lít líka svo á. Hvað sem varðar eðli Evrópusambandsins eru mínar hendur bundnar af því að framfylgja þingsályktun sem Alþingi samþykkti á ákveðnum grundvelli. Sá grundvöllur var álit utanríkismálanefndar. Þar er kveðið mjög skýrt að orði um tollvernd og í framhaldi af því er sagt að einmitt vegna þeirrar afstöðu sem þar kemur fram þurfi sérstaklega að skoða aðgerðir til að styðja hefðbundin fjölskyldubú í mjólkurframleiðslu og sauðfjárrækt. Á grundvelli þeirrar skýrslu sem hv. þingmaður vísaði til hafa mörgum sinnum komið fram yfirlýsingar um að menn séu reiðubúnir að ganga það langt að fara þá leið og afla heimilda til þess, bæði í samningunum en líka hér á Alþingi, að mæta ígildi tollverndar með öðrum hætti. Ég man svo ekki betur en að í þeirri skýrslu sem hv. þingmaður vísar til sé líka vísað til úrvinnsluiðnaðarins og meira að segja slegið tölu á það.