140. löggjafarþing — 89. fundur,  26. apr. 2012.

utanríkis- og alþjóðamál.

761. mál
[17:07]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég mun fara fram með þá línu sem verður mótuð í samningahópnum. Þar eiga bændur fulltrúa. Ég mun fylgja fram þeirri meginlínu sem birtist varðandi þetta og önnur mál sem landbúnað varða í nefndaráliti utanríkismálanefndar. Það er skylda mín, það er ekkert öðruvísi. Mér er falinn sá trúnaður að fylgja henni eftir. Ég mun síðan að sjálfsögðu skoða rækilega þau rök sem koma fram með eða móti tilteknum aðferðum. Þær eru ýmsar.

Hv. þingmaður spurði mig líka um skipan samningahópa. Það var haft fullt samráð varðandi samningahópinn. Gæti ég nú sagt honum frá því með hvaða hætti ég kom að því samráði um alla hluti sem þann hóp varðar. Að því er varðar samráðshópinn hins vegar hafði ég ýmsar hugmyndir og fór meðal annars með þær til utanríkismálanefndar. Þær féllu í grýtta jörð. Mín upphaflega hugmynd var sem sagt sú að skipa í samráðshópinn fulltrúa allra þeirra sem skiluðu inn áliti á sínum tíma. Á endanum var afráðið að þau þrjú sem eru í forustu samráðshópsins gerðu tillögur um ákveðna þætti sem hópurinn þyrfti að uppfylla, hann varðaði kyn, aldur, landsbyggð og þéttbýli. Það var reynt að velja í hópinn með þeim hætti að þar væri þverskurður af þjóð, gætum við sagt. Þar eiga bændur til dæmis mjög gildan fulltrúa sem örugglega lætur til sín taka en sömuleiðis marga góða stuðningsmenn, eins og þeir reyndar eiga í þessum karli sem hér talar yfir ræðustól Alþingis.