140. löggjafarþing — 89. fundur,  26. apr. 2012.

utanríkis- og alþjóðamál.

761. mál
[17:09]
Horfa

Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson (F) (andsvar):

(Gripið fram í.) Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra utanríkismála fyrir að sverja það af sér að vera kratískur hatursmaður landbúnaðarins (Utanrrh.: Algjörlega.) enda veit ég að hann er gamall kúasmali af Mýrunum.

Ég þekki til þess að varðandi samráðshóp um aðildarviðræðurnar fékk framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands á ákveðnum tímapunkti tölvupóst um að þaðan kæmu hugmyndir að nöfnum í þennan hóp. Það var gert. Það fólk þótti ekki henta og það var handvalið eitthvert annað fólk í staðinn. Þess vegna spyr ég um þetta. En nú er búið að skýra ágætlega út hvernig þetta var hugsað og annað slíkt. Þetta var kannski ekki þverskurður hagsmunaaðila heldur voru menn að reyna að velja í þetta hvaða skoðun sem við höfum á slíkri skipun á hópi.

Mig langar til að biðja hæstv. ráðherra í lokaræðu sinni hér í dag eða kvöld að deila með okkur, ef hann hefur einhverja hugmynd um það sem ég kom inn á áðan, hvort það sé rétt að fyrirhugað sé að óska eftir undanþágu varðandi aðföng til álframleiðslu. Svo fór hann ekkert yfir spurningu mína um Alþjóðaviðskiptastofnunina. Hann hefur sjálfsagt ætlað að gera það seinna í dag, ég vil gjarnan að hann hafi það í huga.

Ég tel mjög mikilvægt að sem allra fyrst verði farið í að móta samningsafstöðu fyrir landbúnaðarkaflann, þar verði bændur hafðir með í för. Það þarf að móta afstöðuna í samráði við þá því að það er mjög mikilvægt. Hagsmunir þeirra eru að sjálfsögðu miklir, eins og þjóðarinnar allrar, og það er mjög mikilvægt að farið verði í þessa vinnu sem allra fyrst og að sjálfsögðu á samningahópurinn að fara að funda og koma að þessu.