140. löggjafarþing — 89. fundur,  26. apr. 2012.

utanríkis- og alþjóðamál.

761. mál
[17:26]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Það sem mig langar að ræða um við hv. þingmann — af því að hann gegndi eitt sinn embætti hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og var eins og kunnugt er flestum látinn víkja úr því embætti vegna afstöðu sinnar til Evrópusambandsumsóknarinnar og vegna afstöðu sinnar til þess að ekki færi fram aðlögun áður en þjóðin hefði sagt hug sinn í atkvæðagreiðslu.

Mig langar að taka smáumræðu við hv. þingmann um þessa svokölluðu makríldeilu Íslands og Evrópusambandsins. Eins og kunnugt er var samningamaður Íslands látinn fara sem hefur haldið á þessum málum gríðarlega vel fyrir Íslands hönd, deilunni milli Íslands og Evrópusambandsins hvað varðar makrílinn. Búið er að láta þann samningamann fara og mig langar til að spyrja hv. þingmann hvort einhver undirbúningur að því hafi verið hafinn áður en hann fór úr sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu eða hvort þetta hafi verið stefnubreyting af hálfu þess sem tók við embættinu, þ.e. formanns Vinstri grænna. Vegna þess að það lá alveg ljóst fyrir að Tómas H. Heiðar, samningamaðurinn, hafði mikið traust flestra hér inni, en það var líka alveg ljóst að hann var ekki tilbúinn til þess að fara fram með það að gefa eftir hagsmuni Íslands gagnvart hótunum Evrópusambandsins.

Spurningin er einföld: Voru einhver drög, vinna eða eitthvað því um líkt í gangi við að láta þennan samningamann hætta meðan hv. þingmaður gegndi embætti hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra eða er þetta eitthvað sem gerðist fullkomlega eftir að hv. þingmanni var hent út úr ráðuneytinu?