140. löggjafarþing — 89. fundur,  26. apr. 2012.

utanríkis- og alþjóðamál.

761. mál
[17:29]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Aðalsamningamaður Íslands, Tómas H. Heiðar, var mjög fær í sínu fagi og ég bar mikið traust til hans. Að sjálfsögðu gerði hann ekkert annað á samningafundum sínum en það sem ráðherra hafði bakkað hann upp með eða lagði upp með, þannig að hann var ekki að vinna beint á eigin vegum hvað það varðaði, hann vann á ábyrgð síns ráðherra. Hann var mjög vel að sér í þessum málum og mjög einarður í afstöðu sinni og las stöðuna að mínu mati alltaf hárrétt.

Það er síðan alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að ég vissi af óánægju og óróa meðal ESB-sinna bæði í íslenskri stjórnsýslu og ég tala nú ekki um innan Evrópusambandsins varðandi þátttöku hans. Án þess að ég ætli að fara að gera honum upp neinar skoðanir fann ég ekki að hann væri neinn sérstakur baráttumaður fyrir inngöngu í Evrópusambandið og alls ekki, hann var fyrst og fremst fagmaður í sinni vinnu. Ég tel að það hafi verið mjög, mjög misráðið að láta hann fara. Það má vel vera að það hafi verið gert að kröfu Evrópusambandsins eða samninganefndar þeirra, það má vel vera, ég skal ekkert útiloka það, en ég tel það mjög misráðið.

Ég tel að við þurfum núna að sýna það með ákveðnari hætti en íslensk stjórnvöld gera í dag, finnst mér, að halda fram rétti okkar til að stunda þær makrílveiðar sem við erum að gera samkvæmt alþjóðalögum. Það eru alveg eins Norðmenn og Evrópusambandsríkin sem stunda ofveiði á honum eins og Íslendingar, það bera þarna allir sameiginlega ábyrgð ef menn kalla það svo. Það er alveg óþolandi áróður og yfirlýsingar af hálfu fulltrúa Evrópusambandsins að skella því einhliða á Íslendinga að við séum að stunda ofveiði. (Forseti hringir.) Við erum að sækja okkar rétt og því getum við sagt með sama hætti að það séu alveg eins Evrópusambandsríkin sem (Forseti hringir.) stundi þarna ofveiði ef um það er að ræða. En auðvitað ber að semja um þetta.

En ég tel mjög slæmt að þessum manni skuli hafa verið sagt upp.