140. löggjafarþing — 89. fundur,  26. apr. 2012.

utanríkis- og alþjóðamál.

761. mál
[17:53]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U) (andsvar):

Herra forseti. Ástæðan fyrir því að ég er búin að skipta um skoðun eru ekki skoðanakannanir, það er útúrsnúningur. (Utanrrh.: Það var …) Ástæðan er fyrst og fremst sú að það var talað um að aðildarferlið mundi bara taka eitt og hálft ár. Ég sat hér þolinmóð og beið í helmingi lengri tíma en það. Nú er ljóst að aðildarviðræðurnar munu dragast enn meir á langinn, reyndar er ég þeirrar skoðunar að við séum ekki bara að tala um nokkur ár heldur jafnvel áratug vegna þess að aðildarlönd ESB hafa engan áhuga á nýju aðildarlandi fyrr en búið er að leysa kreppuna á evrusvæðinu. Það tel ég að sé algjörlega ljóst.

Hvað varðar afstöðu mína þá fellur hún mjög vel að stefnu Samstöðu – flokks lýðræðis vegna þess að við leggjum áherslu á lýðræði. Við teljum að það hafi orðið forsendubreyting frá því í janúar og er tíundað mjög vel í ályktun Samstöðu Reykjavíkur hvaða breytingar hafa orðið á undanförnum mánuðum, m.a. þær upplýsingar frá hæstv. ráðherra að aðildarumsóknarferlið muni dragast fram yfir kosningar. Við getum ekki sætt okkur við það. Þess vegna viljum við fá lýðræðislega niðurstöðu um hvort halda eigi þessum viðræðum áfram. Við erum ekki að tala um að leggja umsóknina á ís eða hætta henni, við erum að tala um að fólk fái að segja skoðun sína miðað við þá stöðu sem uppi er í aðildarviðræðunum hér og nú.

Hvað varðar stöðu Evrópusambandsins tel ég að það sé að koma betur og betur í ljós að þetta er nýfrjálshyggjubandalag.